„Það hefur gengið feikilega vel að selja bækur og margt góðra bóka sem kemur út og það er stemming í samfélaginu fyrir bókum. Nú eru höfundar að vísu ekki að fara á milli og lesa upp heldur sitja þeir heima og lesa fyrir kannski 3-400 manns í einu fyrirtæki sem hafði verið óhugsanedi áður.“ segir Pétur Már Ólafsson, útgefandi hjá Bjarti-Veröld. Rætt var við hann, Brynhildi Bolladóttur, upplýsingafulltrúi Rauða krossins og Kristján Guy Burgess alþjóðastjórnmálafræðing í Vikulokunum í morgun.
„Svo þetta opnar líka ákveðnar nýjar leiðir en þegar COVID brast á í vor þá má segja að við lentum í vanda því þá hætti fólk að fljúga. Og í Leifsstöð hefur fjórða hver kilja verið seld. Þarna misstum við út einn fjórða af markaðnum utan jólavertíðar. Við vorum nokkuð uggandi fyrir haustið en fljótlega í september-byrjun október fórum við að heyra utan af okkur úr búðum að þau hefðu mikla trú á því að það yrði mikil bóksla, ég verð að játa það að ég ákvað að fara varlega í upplagstölum í ljósi ástandsins. Þetta er miklu miklu meiri sala heldur en við bjuggumst við. Það er mikil uppbygging í barnabókum og íslenskum skáldverkum, sem er frábært, svo við útgefendur erum mjög ánægðir.“ segir Pétur.
Þá séu bókagjafir að minna hressilega á sig í því ástandi sem hefur varað undanfarna mánuði þar sem fólk dvelur heima löngum stundum.
„Fyrirtæki sem hafa verið með fjölda manns heima í vinnu, þau hafa kannski verið að senda öllum starfsmönnum bók. Svo bókin er orðin svona „hygge“ gjöf,“ segir Pétur.
Hlýða má á Vikulokin í spilaranum hér að ofan. Þátturinn er í umsjón Önnu Kristínar Jónsdóttur.