Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjármagn rennur til fjölmiðlafyrirtækja

12.12.2020 - 12:22
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Tvö af stærstu fjölmiðlafyrirtækjum landsins hafa síðustu daga fengið viðbótarfjármagn, hvort úr sinni áttinni. Ríkisútvarpið fær meira á fjárlögum en til stóð og aðaleigandi Fréttablaðsins, DV og Hringbrautar fjárfesti fyrir hundruð milljóna.

600 milljóna hlutafjáraukning

Helgi Magnússon, fjárfestir og aðaleigandi félagsins Torgs, sem á og rekur meðal annars fjölmiðlana Fréttablaðið, DV og Hringbraut, hefur sett 600 milljónir til viðbótar inn í félagið. 

Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins er markmiðið með hlutafjáraukningunni að greiða upp óhagstæð lán og mæta tapi vegna kórónuveirufaraldursins. Eftir þetta sé reksturinn vel fjármagnaður. 

Fleiri greiða útvarpsgjald en talið var

Þá verða framlög til Ríkisútvarpsins 140 milljónum hærri en upphaflega stóð til, þetta ákvað þingið í annarri umræðu um fjárlög næsta árs. Haraldur Benediktsson, varaformaður fjárlaganefndar, segir í samtali við mbl.is að breytingin sé til komin vegna þess að fleiri greiða útvarpsgjaldið, en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Framlög ríkisins til RÚV eru töluvert lægri en í fyrra og vegna þess hefur þurft að grípa til niðurskurðaraðgerða. 
Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri, sagði í umsögn sinni um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar að 600 milljónir vantaði inn í fjármögnun útvarpsins á næsta ári. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV