Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Ekki hægt að „humma“ Þorparann

Mynd: Rás 2 / Rás 2

Ekki hægt að „humma“ Þorparann

12.12.2020 - 08:57

Höfundar

Í nýrri uppfærslu Google fyrir snjallsíma er nú boðið upp á þá nýbreytni að notendur geta „hummað” lög og laglínur og Google finnur lagið.

Tæknin hefur þegar slegið í gegn og „hummið” er orðið svo vinsælt að Billboard er farið að birta vinsældalista yfir mest „hummuðu” lögin hverju sinni. Á listanum má finna athyglisverða blöndu af nýjum smellum og eldri lögum. Ómögulegt er þó að segja til um hvort eldri lögin komist á listann vegna forvitni ungdómsins eða tilrauna miðaldra snjallsímanotenda. 

Guðmundur Jóhannsson fór yfir þessa nýju tækni í Morgunútvarpinu á Rás 2 og þar kom fram að mörg vinsæl íslensk dægurlög virðast ekki vera í gagnabanka Google. Guðmundur prófaði að humma bæði Þorparann og Gleðibankann en án árangurs. „Það kom alltaf sama niðurstaðan, eitthvað lag frá Austur-Evrópu sem ég hef aldrei heyrt, sem mér fannst ekkert sérstaklega líkt Þorparanum,” segir Guðmundur. Honum gekk þó betur þegar kom að Daða Frey og Sigur Rós. 

Til þess að virkja tæknina þarf að vera með nýja uppfærslu af Google-smáforritinu í símanum. Þegar forritið er opnað er nóg að segja „What’s this song?” og þá ætti Google að bjóða upp á valmöguleikann að leita að ákveðnu lagi. 

Hér má sjá lista Billboard yfir mest „hummuðu” lögin.