Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Einn dómara Hæstaréttar í máli HR kennir við skólann

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Synjun Hæstaréttar á áfrýjunarbeiðni Kristins Sigurjónssonar, fyrrverandi lektors við Háskólans í Reykjavík hefur verið felld úr gildi þar sem einn dómaranna sem tóku beiðnina fyrir er einnig kennari við Háskóla Reykjavíkur, sem á aðild að málinu.

Málið snýst um uppsögn Kristins Sigurjónssonar, fyrrverandi lektors við HR. Honum var sagt upp störfum eftir að DV birti ummæli sem hann lét falla í spjallhópi á Facebook. Daginn eftir umfjöllun DV var Kristinn boðaður á fund mannauðsstjóra og tilkynnt að ekki væri lengur óskað eftir starfskröftum hans.

Kristinn taldi brotið á rétti sínum. Hann sagðist telja að hann hefði frelsi til að tjá skoðanir sínar og krafðist greiðslu launa þar til hann hefði ætlað sér að fara á eftirlaun. Kristinn var 64 ára þegar hann höfðaði mál gegn HR, sagðist hafa hugsað sér að starfa til 70 ára aldurs og krafðist 57 milljóna. 

Bæði Landsréttur og Héraðsdómur Reykjavíkur sýknuðu skólann af bótakröfu Kristins. Hann áfrýjaði málinu til Hæstaréttar sem hafnaði kröfunni í byrjun desember. Mbl.is greindi fyrst frá.

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður Kristins segir í samtali við fréttastofu að hann hafi talið forsendur til staðar til að áfrýja málinu og fá úr því skorið hvort að uppsögnin hefði verið lögleg. Einn af þremur dómurum sem tóku beiðnina fyrir í Hæstarétti er einnig starfsmaður HR, og kenndi til að mynda nú á haustönn.

„Þegar ég fékk þessa synjun sá ég það að einn af þessum dómurum í Hæstarétti sem höfðu staðið að  var Sigurður Tómas Magnússon, sem ég vissi að hefði verið að kenna í Háskólanum í Reykjavík, kannski fyrst og fremst af því að hann tók við af mér þegar ég hætti að kenna þar árið 2004. Svo er hann búinn að vera mjög lengi kennari þarna, hann hafði nú hætt í fastri kennarastöðu í árslok 2017. Ég hélt og hafði eitthvað pat af því að hann hafi verið að kenna í stundakennslu eftir það. Svo ég óskaði eftir upplýsingum frá réttinum, og honum sjálfum og fékk þær. Þá kom það í ljós að hann hafði verið að kenna í haust og prófdæma hjá HR. Það auðvitað finnst nú einhverjum það furðulegt að dómari í Hæstarétti skuli láta sér detta það í hug að setjast í deilumál vinnuveitandans, þó að hann sé ekki í fastri stöðu þar.“ segir Jón Steinar.

Hann óskaði eftir því að hæfir dómarar tækju áfrýjunarbeiðnina fyrir. Allir þrír dómararnir sem tóku fyrri ákvörðun verða látnir víkja sæti.  Réttarfarsreglan er sú að dómarar skuli sjálfir gæta að hæfi sínu í einstökum málum. Jón Steinar segir ómögulegt að segja til um framhald málsins, það verði að koma í ljós. 

„Ég vona að það sé ekki þannig að þetta ráðist af einhverri fjölskyldustemmingu, þannig að hinir dómararnir telji sig skuldbundna þessum dómara með þeim hætti að leysa úr málinu með sama hætti og hann gerði. Ég vona að þau séu stærri og merkilegri dómarar en svo að láta það stjórna sér,“ segir Jón Steinar. 

Í málskotsbeiðni Kristins kemur fram að deilan snúist annars vegar um lögmæti uppsagnarinnar og hins vegar hvort Kristinn eigi rétt á miskabótum. Hann telji skólann hafa takmarkað tjáningarfrelsi hans og dylgjað ranglega um að hann hvetti til mismunar milli kynjanna innan skólans.

Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að ákvörðun skólans hefði hvorki farið gegn ráðningar-og kjarasamningi né að yfirlýsing frá rektor skólans vegna fjölmiðlaumfjöllunar um málið hefði falið í sér ólögmæta meingerð gegn æru og persónu Kristins.