Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Vilja stuðningslán til heimila með fullri ríkisábyrgð

11.12.2020 - 08:48
Efnahagsmál · Innlent · kjaramál · VR
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
VR skorar á stjórnvöld að veita heimilum, sem hafa orðið fyrir atvinnumissi og tekjufalli vegna kórónuveirufaraldursins, stuðningslán með hundrað prósenta ríkisábyrgð. Félagið leggur til að bankar meti greiðslugetu heimila og veiti þeim framfærslulán í gegnum lánatínu til allt að 18 mánaða. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að aðgerðirnar myndu kosta um það bil 18 milljarða.

„Nú er búið að fara í aðgerðapakka vegna COVID-19 sem nema 340 milljörðum af peningum skattgreiðenda. En minnst af því er að fara til skattgreiðenda sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli. Og við erum einfaldlega að benda á að fólkið sem er að lenda í þessum fordæmalausu aðstæðum, missa vinnu og verða fyrir miklu tekjufalli, að það fái stuðning líka. Þannig að þegar viðspyrnan hefst og þetta fer að fara í eðlilegra horf, að þá er fólk ekki að byrja í slæmri stöðu,“ segir Ragnar Þór í viðtali í Morgunútvarpinu í morgun. 

Hann segir að félagið leggi til að bankar meti hversu háa upphæð heimili vanti til þess að ná endum saman. Skuldum heimilanna verði svo breytt í 10 ára skuldabréf og að afborgunin fari í gegnum skattkerfið, að fólk fái skattaafslátt á móti. „Þannig að stuðningurinn breytist í styrk yfir lengri tíma. Þannig getum við allt samfélagið tekið þetta tekjufall sem hluti af okkar samfélagi er að taka,“ segir hann.