Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Um 30 beiðnir til dómstóla um nafnleynd í birtum dómum

Mynd með færslu
 Mynd: Creative commons
Hæstarétti hafa borist 16 beiðnir um að afmá nöfn úr dómum á grundvelli nýrra reglna um persónuvernd. Landsrétti hafa borist tvær slíkar beiðnir og alls hafa um eða yfir tíu beiðnir borist til héraðsdómstólanna. Héraðsdómar Reykjavíkur, Reykjaness og Austurlands halda ekki utan um fjöldann. Mjög misjafnt er hvernig dómstólar sinna birtingu persónuupplýsinga í dómum á netinu. Persónuvernd hefur fengið þó nokkrar tilkynningar um misbresti.

Lagði inn fyrirspurn og boðaði svo til fundar

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis boðaði í síðustu viku gesti á sinn fund til að ræða birtingu nafna og annarra viðkvæmra persónuupplýsinga í dómum á heimasíðum dómstólanna. Meðal þeirra sem komu á fund nefndarinnar voru fulltrúar Persónuverndar, dómsmálaráðuneytis, dómstólasýslunnar og umboðsmanns barna. 

Meginástæða fundarins er fyrirspurn Jóns Þórs Ólafssonar, þingmanns Pírata og formanns nefndarinnar, til dómsmálaráðherra á Alþingi í byrjun nóvember þar sem hann spurði annars vegar hvernig ráðherra ætli að bregðast við birtingu viðkvæmra persónuupplýsinga í dómum og hvað hún ætli að gera varðandi vinnslu og dreifingu fyrirtækja á slíkum upplýsingum. 

Dómsmálaráðherra hefur ekki svarað fyrirspurninni, en ráðuneyti hennar sendi í lok nóvember spurningar til dómstólasýslunnar um málið. Fréttastofa óskaði eftir afriti af svörum dómstólasýslunnar til ráðuneytisins og var orðið við því. 

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, lagði fram fyrirspurn til dómsmálaráðherra um birtingu persónuupplýsinga í dómum á netinu. Málið var síðan rætt á fundi nefndarinnar í síðustu viku.

Strangari persónuvernd í birtingum dóma

Haustið 2019 tóku nýjar reglur gildi um birtingu dóma og úrskurða á vefsíðum dómstólanna. Þær gilda fyrir öll dómstigin þrjú. Nú verða upplýsingar um einka-, fjárhags-, eða viðskiptahagsmuni ekki birtar. Sömuleiðis ekki viðkvæmar heilsufarsupplýsingar, nema þær skipti máli fyrir niðurstöðu dómsins, en þá skuli gætt nafnleyndar. 

Þá fela reglurnar sömuleiðis í sér heimild til að birta einungis úrdrátt úr dómsúrlausn ef ekki verður tryggt að trúnaður ríki um atriði sem eiga að fara leynt. Auk þess má fresta birtingu úrdráttarins til að tryggja persónuvernd betur. 

„Þegar ár er liðið frá birtingu dómsúrlausnar skal orðið við beiðni um nafnleynd ásamt því að þegar nöfnum er haldið leyndum skal jafnframt afmá önnur atriði úr dómsúrlausnum sem geta tengt aðila eða aðra við sakarefnið.”

Öryggisbrestur við dómabirtingar

Ráðuneytið spurði sömuleiðis út í þær aðgerðir sem á að grípa til svo þessum reglum sé fylgt.  Haustið 2019 var starfsmaður dómstólasýslunnar tilnefndur sem persónuverndarfulltrúi allra dómstólanna og sinnir hann eftirliti og aðstoðar dómstóla við að fylgja lögum um persónuvernd. 

„Frá því að persónuverndarfulltrúinn tók til starfa hafa komið upp tilvik þar sem um öryggisbrest var að ræða við birtingu dóma á vefsíðum dómstólanna og í þeim tilvikum hefur persónuverndarfulltrúinn haft samband við forstöðumann umrædds dómstóls og leiðbeint um til hvaða ráðstafana skuli grípa.” 

Geta fyllt út eyðublað ef eitthvað er að

Nú er dómstólasýslan er að útbúa eyðublað fyrir almenning sem verður aðgengilegt á vefnum til að auðvelda fólki að koma ábendingum á framfæri varðandi atriði í birtingum dóma á netinu. Hægt er að óska eftir nafnleynd eftir að ár er liðið frá birtingu og óskað eftir því að ákveðin atriði verði afmáð úr dómunum. 

Dómstólasýslan óskaði eftir fjölda þeirra sem hafa óskað eftir nafnleynd eftir birtingu dóms frá öllum dómstólum landsins. „Af svörum dómstólanna má ráða að það er fremur fátítt að gerð sé krafa um nafnleynd að liðnu ári frá birtingu dóms,” segir í minnisblaðinu.

Mynd með færslu
Héraðsdómur Austurlands. Mynd úr safni. Mynd:

Allskonar aðferðir hjá dómstólum landsins

  • Í Hæstarétti eru það aðstoðarmenn dómara sem annast nafnhreinsun dóma þegar það á við. 
  • Þegar slík mál berast til Landsréttar er sá dómur héraðsdóms nafnhreinsaður og þegar Landsréttur hefur kveðið upp dóm fer aðstoðarmaður landsréttardómara yfir nafnhreinsun héraðsdómsins og nafnhreinsar sömuleiðis dóm Landsréttar.
  • Birting dóma í Héraðsdómi Reykjavíkur er á ábyrgð dómstjóra.
  • Við Héraðsdóm Reykjaness felur dómstjóri hverjum og einum dómara að ábyrgjast birtingu dóma. 
  • Við Héraðsdóm Norðurlands eystra sjá starfsmenn dómstólsins um að hreinsa dóminn fyrir birtingu. 
  • Við Héraðsdóm Suðurlands sér sá dómari sem kveður upp dóminn um birtingu hans. 
  • Einmenningsdómstólarnir (HDAL, HDNV, HDVF og HDVL) leggja áherslu á að vanda til verka og fara eftir reglum dómstólasýslunnar. 

Sú tillaga hefur borist frá dómstjórum að ef einhver einn sæi alfarið um birtingu dóma yrði sennilega til þess að minni hætta verður á mistökum. 

Stærstu héraðsdómstólarnir vita ekki fjöldann

Dómstólasýslan lagði inn fyrirspurnir til allra dómstólanna varðandi fjölda þeirra beiðna sem hafa borist síðan haustið 2019 þess efnis um að afmá nöfn um dómum. 

Hæstarétti hefur borist 16, Landsrétti hafa borist tvær. Fimm beiðnir um útstrikun persónugreinanlegra upplýsinga hafa borist til Héraðsdóms Vesturlands, ein til Héraðsdóms Norðurlands eystra og tvær til Héraðsdóms Suðurlands. Héraðsdómar Reykjavíkur, Reykjaness og Austurlands halda ekki utan um fjöldann. Héraðsdómur Reykjavíkur og Héraðsdómur Reykjaness segja í svari dómstólasýslurnar að beiðnirnar séu ekki margar, teljandi á fingrum annarrar handar fyrir hvert ár. Engar beiðnir hafa borist til Héraðsdóms Vestfjarða og Norðurlands vestra. Héraðsdómur Austurlands heldur ekki utan um fjöldann. Alls eru þetta því um 30 beiðnir til allra dómstóla landsins síðasta ár. 

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Hákon Halldórsson - RÚV

Upphafið megi rekja til Persónuverndar

Persónuvernd sendi minnisblað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar 4. desember, seinna sama dag og fundurinn var haldinn. Þar kemur fram að upphaf málsins megi rekja til tveggja úrskurða Persónuverndar frá árinu 2017, þar sem stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að Héraðsdómur Reykjaness, Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur hafi brotið lög um persónuvernd með birtingu dóma. Þetta voru tvö mál, annað varðaði héraðsdómstólana tvo og hitt Hæstarétt. 

Þónokkrar ábendingar borist

Persónuvernd hefur borist þónokkrar ábendingar um hugsanlega misbresti við birtingu dóma á árinu 2020 og er stofnunin nú að vinna að greiningu á þeim. „Rétt [er] að taka fram að miklar annir eru hjá Persónuvernd og mörg mál sem bíða afgreiðslu, mörg hver þung og brýn,” segir í minnisblaði Persónuverndar til dómstólasýslunnar. „Ekki er því hægt að segja til um á þessari stundu hvenær frumkvæðisathugun Persónuverndar á birtingu persónuupplýsinga á vefsíðum dómstólanna mun ljúka en vonast er til að það verði um mitt næsta ár.” 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV