Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Þurfum að byrja bólusetningarkaflann í baráttunni“

11.12.2020 - 16:54
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fagnar því að stjórnvöld hafi gengið frá samningi við bóluefnaframleiðandann Pfizer. Ísland fær 170.000 skammta sem duga fyrir 85.000 manns. Svandís býst við að fyrstu skammtarnir frá Pfizer, fyrir 10.600 manns, berist rétt fyrir eða rétt eftir áramót.

„Það er auðvitað bara mjög mikilvægt að við byrjum að fá þessi efni í hús. Við erum að vinna að samningum við sex mismunandi aðila og þetta er einn af þeim samningum sem við erum búin að klára. Hann var undirritaður í fyrradag og það sem lá strax fyrir er að við fáum þessa rúmlega 21.000 skammta sem dugar fyrir 10.600 manns núna strax um áramótin. En við fáum að vita betur í næstu viku hvernig það raðast svo og hvenær þetta allt saman kemur,“ segir Svandís í samtali við fréttastofu. 

Mikilvægast að byrja sem fyrst að bólusetja

Hún segir mikilvægast af öllu að geta byrjað bólusetningarnar. „Og eins og þetta liggur getum við byrjað strax á forgangshópunum okkar sem eru framlínustarfsfólk í heilbrigðisþjónustu og íbúar á hjúkrunarheimilum. Það eru þeir hópar sem eru í efstu hópunum í reglugerðinni um forgangsröðun í bólusetningu,“ segir Svandís. 

Spurð hvort hún geti sagt til um það nákvæmlega hvenær efnið berst til landsins segir Svandís að það sé enn óljóst en að hún búist við að það verði einhvern af dögunum rétt fyrir eða rétt eftir áramót. „Við erum að tala um alveg mjög nálægt því, hvort það dettur hérna megin eða hinum megin veit ég ekki alveg,“ segir ráðherrann.

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, hefur sagt að bólusetningar geti hafist um leið og efnið berst til landsins og að hægt væri að bólusetja þjóðina á örfáum dögum. Heldurðu að heilsugæslan hefjist handa næstum samdægurs?

„Já, heilsugæslan er að búa sig undir það og við erum að undirbúa kerfið, framkvæmdina og dreifinguna. Það er verið að leggja lokahönd á forritunarvinnu til þess að þetta geti gengið sem smurðast fyrir sig, bæði að hafa samband við fólk og tryggja að það náist í alla sem eru í forgangi. Þetta er allt í undirbúningi og á að vera tilbúið þegar fyrstu skammtar koma,“ segir hún. 

En geturðu sagt eitthvað til um það hvenær við megum búast við skammti númer tvö?

„Það ætti að skýrast í næstu viku, þetta er allt saman að gerast. Það er mikilvægast að við komum efninu í virkni strax og það kemur, óháð því hvort þeir verða litlir eða stórir. Við þurfum bara að byrja þennan kafla sem er bólusetningarkaflinn í baráttunni við COVID-19,“ segir Svandís.

Ertu bjartsýn á að það takist að halda faraldrinum niðri þar til við komumst að bólusetningarkaflanum?

„Sannarlega vona ég það og það eru náttúrulega krefjandi tímar framundan. Aðventan er tími þar sem við viljum hittast en ég treysti því að, eins og hefur verið í baráttu okkar, fólk snúi bökum saman. Það er mikilvægt að við höfum öll varann á okkur, því við erum ekki bara að passa upp á okkur sjálf heldur ekki síður fyrir okkar viðkvæmustu hópa,“ segir Svandís að lokum.