Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Stjórnarskrárfrumvarp til meðferðar eftir áramót

11.12.2020 - 14:17
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Alþingi fær frumvörp eða frumvarp forsætisráðherra um breytingar á stjórnarskrá til meðferðar eftir áramót. Enn er unnið úr athugasemdum sem hafa borist, til dæmis hafa verið gerðar verulegar athugsemdir varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur stefnt að því að ljúka því fyrir jól en þótt unnið hafi verið að þessu máli allt kjörtímabilið í samvinnu við aðra flokksformenn þá virðist það hvergi nærri í höfn.

Leitað hefur verið álits hjá Lagastofnun Háskóla Íslands og hjá Feneyjanefndinni um ýmis álitamál og er enn verið að finna úr þeim athugasemdum. Fyrir svo utan pólitíkina sjálfa því dæmin sanna að stjórnmálamenn eiga afar erfitt með að ná sameiginlegri niðurstöðu i þessu máli. Forsætisráðherra býst við að málið verði afgreitt eftir áramót.

„Ég á von á því að Alþingi fái þetta til meðferðar eftir áramót og það takist þá að eiga góða umræðu um þessi mál.“

Hvað eru þetta mörg frumvörp?

„Ég er nú ekki endanlega búin að taka ákvörðun um það það liggur fyrir að það eru til dæmis verulegar athugasemdir gerðar við þær tillögur sem við höfum verið að vinna með varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur þannig að þetta er svona enn til vinnslu.“

Eru aðrir flokksformenn á Alþingi með þér á þessum frumvörpum?

„Við eigum eftir að sjá til hvernig þetta verður endanlega lagt fram en það liggur auðvitað fyrir og hefur komið fram í fréttum að það eru mjög mismunandi skoðanir á þessum tillögum“ segir Katrín.

Hún segist sannfærð um að þessar tillögur séu skref til bóta en við þurfum að bíða þar til í janúar til að sjá þær. Þingfundur stóð til klukkan að verða ellefu í gærkvöld og þá höfðu þingmenn rætt fjárlagafrumvarp næsta árs við aðra umræðu frá því rétt fyrir hádegi. Stjórnarandstaðan gerir fjölmargar breytingatillögur og tillögur meirihlutans hljóða upp á tæpa 56 milljarða sem eru tölur sem ekki hafa sést lengi.

Það er afar sjaldgæft að önnur umræða um fjárlög taki innan við 12 klukkustundir en þingfundur hófst á Alþingi klukkan eitt á atkvæðagreiðslu um frumvarpið en nú standa yfir þingflokksfundir þar sem þingmenn stilla saman strengi fyrir atkvæðagreiðsluna en þetta er síðasta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili því kosið verður á næsta ári.