Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Sakar ríkisstjórnina um getuleysi gagnvart heimilunum

11.12.2020 - 15:57
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Fjármálaráðherra segir gríðarlegt verkefni fram undan við það að leggja grunninn að því að ríkisfjármálin verði sjálfbær á ný. Fyrrverandi fjármálaráðherra sakar ríkisstjórnina um getuleysi gagnvart heimilunum.

Atkvæðagreiðsla um fjárlög næsta árs eftir aðra umræðu hófst klukkan eitt í dag og stendur enn.Fjárlagafrumvarp næsta árs er markað af kórónuveirufaraldrinum enda snýst stærsti hluti breytingatillagna meirhlutans um viðspyrnuna.

320 milljarða halli verður á ríkissjóði á næsta ári og breytingatillögur meirihluta hljóða uppá tæpa 56 milljarða. Tímarnir eru fordæmalausir sagði samgönguráðherra við upphaf atkvæðagreiðslunnar og forsætisráðherra sagði fjárlögin endurspegla sterka stöðu ríkissjóðs og öfluga innviði. Atkvæði voru að mestu greidd eftir flokkslínum en stjórnarandstaðan studdi fjölmargar breytingatillögur meirihlutans.

„Þessi halli er gríðarlegur. 320 millljarðar, tekjurnar innan við 800 milljarðar. Það bíður okkar þess vegna gríðarlega mikið verkefni að ná að nýju sjálfbærni í fjármálum ríkisins og hins opinbera en með kraftmikilli viðspyrnu sem meðal annars kemur með þeim fjárlögum sem hér verða greidd atkvæði um þá leggjum við grunninn að því að fjármál hins opinbera verði sjálfbær á ný,“ segir Bjarni Benediktsson.

„Í frumvarpi þessu er er sett Íslandsmet í halla ríkissjóðs. Lán eru tekin á færibandi eins og enginn væri morgunadagurinn. Hagræðing er engin, ekkert sparað á móti gríðarlegum halla,“ segir Birgir Þórarinsson.

„Það er skammarlega lítið lagt til heimilanna í þessari djúpu atvinnukreppu og þess vegna gagnrýni ég hæstvirta ríkisstjórn og háttvirta stjórnarþingmenn fyrir getuleysi í þeim efnum,“ sagði Oddný Harðardóttir fyrrverandi fjármálaráðherra á Alþingi í dag.

 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV