Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

SÁÁ hættir þátttöku í rekstri spilakassa

11.12.2020 - 19:51
Mynd: RÚV / RÚV
Samþykkt var á fundi stjórnar SÁÁ í gærkvöld að samtökin hætti þátttöku í rekstri Íslandsspila, sameignarfélagi SÁÁ, Rauða Krossins og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, sem hefur séð um rekstur spilakassa.

„Okkur fannst það ekki vera þess virði og samræmast gildum SÁÁ að vera inn í rekstri á spilakössum og vera þátttakandi í Íslandsspilum,“ segir Einar Hermannsson, formaður SÁÁ.

„Afleiðingarnar beint fyrir okkur eru náttúrulega tugmilljóna króna skerðing á sjálfsaflafé en við teljum það traust og þá virðingu sem við höfum þarna úti ívið sterkara,“ segir hann.

SÁÁ átti rúmlega níu prósenta hlut í Íslandsspilum sem skiptist nú á milli Landsbjargar, sem fyrir átti rúmlega 26 prósent og Rauða Krossins, sem átti 64 prósent. Framkvæmdastjóri Rauða krossins gerir ráð fyrir að hagnaður samtakanna vegna reksturs spilakassa verði rúmlega hundrað milljónir króna í ár, þrátt fyrir að spilastaðir hafi verið lokaðir í þrjá mánuði vegna farsóttarinnar.

Þá standi ekki til að hætta rekstrinum þar sem samtökin fái um tuttugu prósent af tekjum sínum í gegnum kassana, tekjur af spilakössum minnki þó með hverju árinu. Landsbjörg ætlar heldur ekki að hætta rekstrinum.

„Ef við ætluðum að endurskoða það þá erum við alveg til í það samtal. Ef einhverjir aðrir geta fjármagnað allt þetta sjálfboðaliðastarf sem er í landinu,“ segir Kristín Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins.

Væri betra ef þið þyrftuð ekki að fjármagna ykkar starfsemi með þessu?

„Miðað við umræðuna jú og miðað við allt og allt væri það náttúrulega ögn þægilegra.“

Það hlýtur að skipta ykkur máli hvaðan peningarnir koma?

„Það eru ekki allir sem spila í spilakössum með spilavanda. Við læknum ekki spilavandann með því að loka kössunum,“ segir Kristín.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV