Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ný matvælastefna mikilvægt leiðarljós inn í framtíðina

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ný matvælastefna er mikilvægt leiðarljós til framtíðar, um hvernig auka megi verðmætasköpun með matvælaframleiðslu hér á landi. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Hún telur að Ísland búi yfir miklum tækifærum sem matvælaframleiðsluland.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynntu matvælastefnu fyrir Ísland til ársins 2030 í gær. Með henni er í fyrsta sinn mörkuð stefna varðandi matvæli fyrir Ísland, en markmið hennar er að tryggja aðgengi að góðum mat, auka heilbrigði þjóðarinnar í sátt við umhverfi og náttúru og leggja grunn að meiri verðmætasköpun í matvælaframleiðslu hér á landi. 

Katrín segir að í stefnunni sé meðal annars dregið fram hvaða tækifæri Íslendingar eiga í matvælaframleiðslu, hvernig hún geti stutt við loftslagsmarkmið og markmið um lýðheilsu.

„Þannig að þetta er mikið starf sem þarna er búið að vinna. Við ætlum núna að setja þessa stefnu og aðgerðaáætlunina í samráðsgátt stjórnvalda til þess að kalla eftir umræðu og athugasemdum en ég hef þá trú að þetta verði mikilvægt leiðarljós inn í framtíðina, hvernig við getum einmitt aukið verðmætasköpun með matvælaframleiðslu á Íslandi, aukið gagnsæi og rekjanleika fyrir neytendur þannig að fólk geti algjörlega rakið hvaðan maturinn er að koma frá fyrsta stigi.“

Katrín segir að margar góðar tillögur séu í stefnunni, sem skipti máli að vinna vel úr svo þær hafi áhrif.

„En ég held líka að Ísland eigi mikil tækifæri sem matvælaframleiðsluland til lengri tíma.“