Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mesta framkvæmdaár RARIK senn á enda

11.12.2020 - 13:14
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Stærstur hluti þeirra þeirra lína sem biluðu þegar um 140 staurar brotnuðu í illviðrinu eru komnir í jörð. Viðgerðir á dreifikerfi RARIK eftir ofviðrið 10. desember í fyrra stóðu langt fram eftir þessu ári. Veðrið olli jafnframt meiri truflunum á dreifingu orku en næstu þrjú ár á undan samanlagt.

Á næsta ári verður haldið uppteknum hætti við að leggja línur í jörð en sjaldan hefur RARIK staðið í jafnmiklum framkvæmdum á einu ári. Því er dreifikerfi RARIK enn betur í stakk búið að takast á við fárviðri á borð við það sem gekk yfir fyrir ári. Truflunum í kerfinu vegna veðurs hefur þegar fækkað nokkuð.

Allt frá afspyrnuveðrinu 3. febrúar 1991 hefur RARIK unnið markvisst að lagningu jarðstrengja og enn var bætt í eftir bálviðrið í fyrra. Jafnframt lögðu stjórnvöld aukið fé til að flýta verkinu. Jafnframt hafa stjórnvöld ákveðið að ráðstafa fé svo hægt verði að flýta endurnýjun dreifikerfisins. 

Ætlunin er að dreifikerfi RARIK allt, sem er um 9.000 kílómetrar að lengd verið komið í jörð 2035. Jafnramt er stefnt að því allir stórir notendur verði komnir með þriggja fasa rafmagn á næstu fimm árum og öll býli í ábúð árið 2030.