Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lilja uppfyllti skyldur sínar gagnvart skólameistara

Mynd með færslu
Lilja Alfreðsdóttir og Ágústa Elín Ingþórsdóttir. Mynd: RÚV/Aðsend mynd
Landsréttur staðfesti í dag sýknudóm yfir íslenska ríkinu vegna uppsagnar Ágústu Elínar Ingþórsdóttur, skólameistara Fjölbrautaskóla Vesturlands. Ágústa fór fram á að sú ákvörðun mennta- og menningarmálaráðherra að auglýsa starf hennar yrði felld úr gildi eða dæmd ólögmæt.

Jafnramt krafðist Ágústa þess að viðurkennt yrði með dómi að skipunartími hennar, sem rann út í árslok 2019, hefði framlengst til fimm ára. 

Landsréttur, líkt og Héraðsdómur Reykjavíkur áður, telur ráðherra hafa uppfyllt þá skyldu starfsmannalaga að tilkynna þeim sem skipaðir eru í embætti að til standi að auglýsa embætti þeirra laust til umsóknar.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hafi tilkynnt Ágústu þá ákvörðun sína símleiðis þann 30. júní 2019 eftir að bílstjóri ráðherra kom boðsendu bréfi þess efnis inn um bréfalúgu á heimili skólameistarans.

Ágústa og eiginmaður hennar hafi verið heima við og ekki ljóst hvers vegna þau hafi ekki orðið bílstjórans og bréfsins vör. 

„Samkvæmt því sem að framan hefur verið rakið verður það ekki talin gildandi regla á sviði stjórnsýsluréttar að ákvarðanir stjórnvalds skuli fortakslaust birta skriflega eða að það sé forsenda þess að tilkynning um ákvörðun hafi þau réttaráhrif sem lög ákveða að þær berist viðkomandi með skriflegum hætti innan lögmæltra tímamarka,“ segir í dómi Landsréttar.

Rakið er nokkur ókyrrð hafi verið um ýmis mál í skólanum en hafi ráðherra ekki litið á þá ákvörðun að auglýsa embættið sem ávirðingar á störf skólameistara.

Þó hafi skapast tækifæri til að endurmeta stöðuna með hagsmuni skólastarfsins að leiðarljósi og að Ágústa væri ekki útilokuð frá því að sækja um að nýju.

Í ljósi þeirrar meginreglu að embættismenn séu skipaðir tímabundið til fimm ára geti þeir ekki haft réttmætar væntingar til áframhaldandi skipunar. Ráðherra hafi rúma heimild til að meta hvort lögmætum tilgangi þjóni að auglýsa stöðu að loknum skipunartíma embættismanns, það sé ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga. 

Því er niðurstaða dómsins sú „að ákvörðun mennta-og menningarmálaráðherra um að auglýsa stöðu skólameistara Fjölbrautaskólans á Vesturlandi hafi verið tekin á grundvelli skýrrar lagaheimildar, birt innan lögmæltra tímamarka og byggð á málefnalegum sjónarmiðum að undangenginni fullnægjandi rannsókn.“ Málskostnaður var felldur niður.