
Hariri var forsætisráðherra Líbanons, fyrst frá 1992-1998 og svo aftur frá 2000-2004. Hann var ráðinn af dögum í febrúar árið 2005. Öflug sprengja sprakk þar sem bílalest hans fór hjá í Beirút, höfuðborg Líbanons. Tilræðið er talið hafa verið sjálfsvígsárás.
Alls létu tuttugu og þrír lífið í tilræðinu, þar á meðal lífverðir Hariris og annar fyrrverandi ráðherra. Nærri 230 særðust, margir alvarlega.
Salim Ayyash, var í ágúst sakfelldur fyrir morðið á Hariri og aðild að hryðjuverkastarfsemi, en hann er talinn hafa skipulagt ódæðið. Ayyash hefur um árabil farið huldu höfði, einnig þrír grunaðir samverkamenn hans, en ákærur á hendur þeim voru felldar niður vegna skorts á sönnunargögnum.
Dómarar sögðu einnig í morgun að ekki hefðu verið lögð fram sönnunargögn sem tengdu forystumenn Hisbollah-samtakanna eða stjórnvöld í Sýrlandi við morðið á Hariri, en valdamiklir aðilar hefðu sennilega verið viðriðnir það.
Annað mál á hendur Ayyash er óuppgert hjá dómstólnum en það snýst um aðrar árásir á líbanska stjórnmálamenn á árunum 2004-2005.