Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Landsréttur mildar refsingu í nauðgunarmáli

11.12.2020 - 17:49
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Landsréttur dæmdi í dag tvo menn á fertugsaldri, Lukasz Soliwoda og Tomasz Walkowski, til tveggja ára fangelsisvistar fyrir að hafa nauðgað unglingsstúlku í Reykjavík í febrúar 2017. Jafnframt þurfa þeir að greiða stúlkunni, sem var yngri en 18 ára þegar brotin voru framin, 1,5 milljónir króna í miskabætur.

Fangelsivist þeirra var stytt um eitt ár í Landsrétti en miskabæturnar hækkaðar örlítið frá því sem dæmt var í héraði. Þriðji maðurinn, yngri en hinir tveir, var sýknaður.

Ekki þótti ástæða til að skilorðsbinda refsingu þeirra Soliwodas og Walkowskis enda brotið mjög alvarlegt og ófyrirleitið. Sérstaklega var þó tiltekið þeim til refsilækkunar hve langur tími hefði liðið frá því brotið var framið uns ákæra var gefin út, eða 27 mánuðir.

Hvorugur mannanna hefur verið dæmdur til refsingar áður en hámarksrefsing fyrir brot af þessu tagi er sextán ára fangelsi.

Í dómnum kemur fram að stúlkan hitti þann yngsta í miðborg Reykjavíkur seint að kvöldi og fór að lokum heim til hans ásamt hinum tveimur. Þar brutu Soliwoda, sem er fæddur 1985, og Walkowski, fæddur 1981, gegn henni með því að hafa við hana „samfarir og önnur kynferðismök ... án hennar samþykkis.“

Jafnframt hafi þeir notfært þeir sér ölvunarástand hennar og aldursmun. Sá aldursmunur hefði átt að vera báðum mönnunum fullljós enda segir í dómnum að hvorugur eigi sér nokkrar málsbætur. Þeir hafi engu skeytt velferð stúlkunnar þegar þeir komu fram vilja sínum við hana.

„Eru brot sem þessi til þess fallin að hafa í för með sér stórfelldan miska fyrir þann sem fyrir því verður. Þá má af málsgögnum ráða að brotin hafi haft alvarlegar afleiðingar fyrir líðan brotaþola þó ekki verði greint á milli afleiðinga brota hvors ákærðu um sig,“ segir í dómsorði.