Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Fimm fersk fyrir jólafýlupúka

Mynd með færslu
 Mynd: Taylor Swift - Willow

Fimm fersk fyrir jólafýlupúka

11.12.2020 - 18:05

Höfundar

Það er ýmislegt annað í boði en jólalög þessa dagana ef fólk hefur smekk fyrir þeim. Það má nefna nýtt lag með Taylor Swift sem kom út í gær, nýlega ábreiðu Bonny Light Horseman af Elliot Smith, flug Avalanches ásamt Johnny Marr og MGMT um himingeiminn, lag frá Park Hye Jin sem er líka í skýjunum og að lokum innlegg frá jözzuðum Channel Tres.

Taylor Swift – Willow

Hin þrítuga megastjarna Taylor Swift endurtók leikinn frá því fyrr í ár með plötuna Folklore; að dúndra út með litlum fyrirvara níundu breiðskífu sinni sem heitir Evermore. Platan er systraplata Folklore og er tekin upp í beinu framhaldi af henni því samkvæmt tónlistarkonunni þá gat gengið, sem í eru meðlimir úr the National, Haim og Bon Iver, ekki hætt að semja þegar það var komið í gang.


Bonny Light Horseman – Clementine

Ein af betri plötum ársins á tónlistarheimilinu er samnefnd plata hinnar frábæru indie-folk-súpergrúbbu Bonny Light Horseman. Eins og áður hefur komið fram eru skipa sveitina söngkonan Anaïs Mitchell úr Fruitbats, Eric D. Johnson úr Shins og Josh Kaufman sem hefur unnið með öllum og ömmum þeirra. Lagið Clementine er ekki að finna á frumraun Bonny Light Horseman en sumir ættu að muna eftir því í flutningi Elliot Smith.


Avalanches með MGMT og Johnny Marr – The Divine Cord

Nú hefur ástralski dúettinn Avalanches sent frá sér þriðju breiðskífuna í fullri lengd og hlaut hún nafnið We Will Always Love You. Það er mikill gestagangur á plötunni eins og tónlistarunnendur hafa heyrt um á árinu, meðal annarra Blood Orange, Karen O, Leon Bridges og Sampa the Great. Í nýja laginu eru síðan Johnny Marr úr Smiths og MGMT. Samkvæmt öllum lögum og reglum um alheiminn er þetta bara algjört stafarugl en Avalanches eru ekkert venjuleg hljómsveit.


Park Hye Jin og Nosaj Thing – Clouds

Suðurkóreska tónlistarkonan Park Hye Jin sem sumir kalla rappara laumar öðru lagi sínu á árinu inn í fimmuna í þessari viku. Lagið Clouds fylgir eftir þröngskífu hennar, How Can I, og er unnið með bandaríska pródúsernum Nosaj Thing.


Channel Tres með Tyler, The Creator – Fuego

Tónlistarmaðurinn Channel Tres er frá Compton í Kaliforníu og hefur sent frá sér ansi skemmtilega söngla á árinu auk þess að eiga ágætis plötu í fyrra. Nýja lagið er alveg í karakter og þar rappar Tres yfir jazzaðan hústakt ásamt Tyler, the Creator.