Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Ég tárast í hvert skipti sem ég sé þetta“

11.12.2020 - 19:28
Mynd: - / Kór Langholtskirkju
Kórstjóri í Langholtskirkju segist alltaf tárast þegar hann horfi á jólakveðju sem áttatíu kórfélagar sungu saman með hjálp tækninnar. Söngvararnir eru allt niður í þriggja ára.

Líkt og flestir aðrir kórar eru kórar Langholtskirkju vanir að halda jólatónleika. Vegna ástandsins verður ekkert af því að þessu sinni. Stjórnendur kóranna vildu hins vegar gera eitthvað til þess að koma landsmönnum í jólaskap á þessum síðustu og versu tímum.

Jólin alls staðar er eftir hjónin Jón Sigurðsson og Jóhönnu G. Erlingsson, en þau voru bæði mjög virk í starfi Langholtskirkju.

„Þau sömdu þetta lag fyrir akkúrat 60 árum, í desember 1960, og hún dó á þessu ári, hún Jóhanna, og ég spilaði við útförina hennar hér í sumar. En þetta er okkur rosalega kært lag og við vildum koma þessu til skila frá öllum kórunum okkar, fyrst við gátum ekki haldið neina jólatónleika,“ segir Magnús Ragnarsson, kórstjóri.

Mikil tæknivinna

Félagar í öllum sex kórum Langholtskirkju syngja lagið, sá yngsti þriggja ára.

„Þetta er svolítið mikil tæknivinna. Við fengum 80 myndbönd frá kórmeðlimum sem þeir tóku heima hjá sér og sendu okkur, og svo þurfti að splæsa þessu öllu saman, bæði hljóði og mynd,“ segir Sunna Karen Einarsdóttir, kórstjóri.

Hvernig finnst ykkur útkoman?

„Ég tárast í hvert skipti sem ég sé þetta,“ segir Magnús.

Myndband af flutningi kóranna í heild sinni má sjá hér að neðan.

 

Mynd: Langholtskirkja / RÚv
johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV