Sögusvið myndarinnar er sagt í fjarlægri framtíð, þar sem ný kynslóð geimskutlufljúgandi ofurhuga hættir lífi sínu í baráttu við alls kyns illyrmi úr öllum kimum alheimsins.
Leikstjórinn verður Patty Jenkins, sem meðal annars leikstýrði kvikmyndinni Wonder Woman sem frumsýnd var 2017. Nýja myndin var kynnt á fjárfestadegi Disney í gær ásamt ýmsu efni öðru sem þar er í pípunum, meðal annars sjónvarpsþáttaröðum úr Stjörnustríðsheiminum; hliðarseríu sem skaparar Mandalorian-syrpunnar bera ábyrgð á og annarri sem skartar Lando Calrissian í aðalhlutverki. Lando þessi er félagi Hans Óla, sem síðast dúkkaði upp í kvikmyndinni The Rise of Skywalker árið 2019 eftir 39 ára fjarveru.