Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Daði Freyr vildi alls ekki syngja Jaja Ding Dong

Mynd með færslu
 Mynd: Myndband - .

Daði Freyr vildi alls ekki syngja Jaja Ding Dong

11.12.2020 - 12:56

Höfundar

Lagið Jaja Ding Dong er einn af hápunktum ársins 2020 að mati bandaríska tímaritsins Entertainment Weekly. Í ítarlegri umfjöllun um lagið er rætt við Daða Frey, sem kvartar undan flóði óskalagabeiðna æstra aðdáenda lagsins.

Lagið Jaja Ding Dong, úr Eurovision-grínmynd Will Ferrels, varð geysivinsælt í sumar. Í afar langri og ítarlegri grein um lagið, sem birtist í Entertainment Weekly í vikunni, stendur að það hafi beinlínis umbreytt andlegu orkustigi heimsins meðan COVID-19 tröllreið öllu.

Daði Freyr, sem keppa átti fyrir Íslands hönd í Eurovision á árinu, varð fyrir barðinu á miklum vinsældum lagsins. „Um leið og ég sá Jaja Ding Dong-senuna varð mér ljóst að ég myndi fá óskir um lagið úr öllum áttum,“ segir hann í viðtali vð Entertainment Weekly.

Í fyrstu var Daða þvert um geð að verða við beiðnum um að flytja lagið í eigin útgáfu. En dropinn holaði steininn, Daði lét undan og flutti lagið. „Það gerist ekki aftur, ég lofa því,“ segir hann.

Jaja Ding Dong sungið í jarðarför

Í grein tímaritsins er einnig rætt við leikstjóra myndarinnar, David Dobkin, og tónlistarstjóra hennar, Savan Kotecha. Báðir segja þeir að vinsældir lagsins hafi komið á óvart. Vegna heimsfaraldursins bjuggust þeir ekki endilega við því að það myndi falla í góðan jarðveg hjá áhorfendum.

Mynd með færslu
 Mynd: Netflix
Vinsældir lagsins komu leikstjóra myndarinnar á óvart.

Dobkin segir frá því að lagið hafi verið flutt við jarðarför manns sem lést úr COVID-19 um sumarið. „Það sem færði honum svo mikla gleði [á sjúkrabeðinum] var Eurovision-myndin. Hann spilaði tónlistina úr myndinni aftur og aftur og aftur og Jaja Ding Dong var uppáhalds lagið hans ... Bróðir hans lærði að spila lagið á gítar og allir tóku undir í jarðarförinni. Það hjálpaði þeim að minnast hans sem mannsins sem elskaði að hlæja.“

Hægt er að lesa umfjöllun Entertainment Weekly hér.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Við höfum öll verið Jaja dingdong-gæinn“

Klassísk tónlist

Spila Jaja Ding Dong fyrir leikskólabörn úti á túni

Tónlist

Daði tekur Jaja Ding Dong: „Í fyrsta og síðasta skipti“