Lagið Jaja Ding Dong, úr Eurovision-grínmynd Will Ferrels, varð geysivinsælt í sumar. Í afar langri og ítarlegri grein um lagið, sem birtist í Entertainment Weekly í vikunni, stendur að það hafi beinlínis umbreytt andlegu orkustigi heimsins meðan COVID-19 tröllreið öllu.
Daði Freyr, sem keppa átti fyrir Íslands hönd í Eurovision á árinu, varð fyrir barðinu á miklum vinsældum lagsins. „Um leið og ég sá Jaja Ding Dong-senuna varð mér ljóst að ég myndi fá óskir um lagið úr öllum áttum,“ segir hann í viðtali vð Entertainment Weekly.
Í fyrstu var Daða þvert um geð að verða við beiðnum um að flytja lagið í eigin útgáfu. En dropinn holaði steininn, Daði lét undan og flutti lagið. „Það gerist ekki aftur, ég lofa því,“ segir hann.
Jaja Ding Dong sungið í jarðarför
Í grein tímaritsins er einnig rætt við leikstjóra myndarinnar, David Dobkin, og tónlistarstjóra hennar, Savan Kotecha. Báðir segja þeir að vinsældir lagsins hafi komið á óvart. Vegna heimsfaraldursins bjuggust þeir ekki endilega við því að það myndi falla í góðan jarðveg hjá áhorfendum.