Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Brexit-forvöð og fullveldishugmyndir

11.12.2020 - 20:22
Mynd: EPA-EFE / EPA POOL
Það hefur sífellt teygst á síðustu Brexit-forvöðunum. Í morgun sagði Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að á sunnudaginn verði skorið úr um hvort forsendur fríverslunarsamnings liggi fyrir. Boris Johnson forsætisráðherra Breta segist tilbúinn að leggja mikið á sig til að ná samningum en varar þó við að það stefni í samningslausa útgöngu.

Fiskmetið leysti ekki vandinn en frestaði fram á sunnudag

Það var mikið gert úr því í fréttum hversu táknrænt það var að hafa fiskmeti í forrétt og aðalrétt þegar þau hittust á miðvikudagskvöldið, Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Boris Johnson forsætisráðherra Breta. Táknrænt, af því fiskur er eitt af þremur efnum, sem allt strandar á í viðræðum ESB og Breta um fríverslunarsamning. Í viðbót við samkeppnismál og hvernig eigi að úrskurða í deilum um framkvæmd samningsins.

En allt kom fyrir ekki. Fiskmetið leysti ekki vandann en frestaði endalokunum enn og aftur. Nú fram á sunnudag.

Johnson veifar ástralska sambandinu við ESB

Við munum ákveða á sunnudaginn hvort það liggja fyrir forsendur samkomulags eða ekki, sagði von der Leyen á leiðtogafundi ESB, sem lauk í dag.

Forsíður allra bresku blaðanna í dag eru að mestu undirlagðar undir orð Boris Johnsons frá í gær.

Það eru nú miklar líkur, já miklar líkur á að lausnin verði meira eins og ástralska sambandið við ESB en kanadíska sambandið og það þýðir ekki að það sé eitthvað slæmt, sagði forsætisráðherra.

Fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu: ástralska sambandið engin óskastaða

Malcolm Turnbull fyrrum forsætisráðherra Ástralíu er á öðru máli. Ástralir skipta við ESB á forsendum Alþjóða viðskiptastofnunarinnar og það er engin óskastaða, sagði Turnbull í vikunni.

Farið varlega í óskirnar, sagði Turnbull. Í hreinskilni sagt þá er viðskiptasamband Ástrala við ESB ekki það sem Bretlandi myndi kjósa. – Og reyndar Ástralir ekki heldur. Eins og Turnbull hnykkti á eiga Ástralía og ESB í fríverslunarviðræðum sem að venju taka mörg ár.

Svartsýni á samningshorfur bergmálar víða

Svartsýni um samningshorfur bergmálar nú alls staðar og þá einnig meðal ESB-leiðtoga líkt og heyra mátti á Stefan Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar í gær.

Ég er heldur svartsýnn í dag. Eftir því sem ég heyri gengur ekkert, sagði brúnaþungur Löfven í Brussel.

Johnson reyndi að koma upp á milli ESB og Frakka og Þjóðverja en tókst ekki

Johnson forsætisráðherra hefur ekki komið að samningaviðræðunum fyrr nú allra síðast þegar hann ræddi við von der Leyen um helgina og fundaði svo með henni í Brussel. Það hefur svo frést að á mánudaginn, þegar fundur við von der Leyen lá fyrir, hafi Johnson óskaði eftir fundi við bæði Emmanuel Macron Frakklandsforseta og Angelu Merkel Þýskalandskanslara en þau voru samtaka um að hafna beiðninni: samningunum er stýrt í Brussel.

Þessi viðleitni Johnsons endurspeglar þá lífseigu trú eða öllu heldur von hér í Bretlandi að ESB yrði ósamtaka. Löndin 27 gætu ekki haldið einingu og það væri þá lag fyrir Breta. En nei, ESB-samheldnin blífur.

Bretar veifa fullveldi sem rökum gegn samningi – en ESB er samband fullvalda ríkja

Helstu rök Breta fyrir að hafna fyrirliggjandi samningum er að í þeim sé staða þeirra sem frjáls og fullvalda ríkis ekki virt. Aðrir benda á að fullveldi felist einmitt í að ríki geti tekið ákvörðun um hagstæðar skuldbindingar líkt og á við um þátttöku í margs kyns alþjóða samstarfi. Og í viðbót: ESB lítur einmitt á sig sem samband frjálsra og fullvalda ríkja.

Þetta hljómaði einnig í orðum von der Leyen í morgun þegar hún fór yfir stöðu mála. Lausnin sem liggur fyrir í samkeppnismálum er að Bretland væri frjálst, mætti segja fullvalda, til að velja sína leið, sagði von der Leyen með brosvott á vör.

Johnsons að vega og meta kosti og galla

Samningurinn er þarna, bara ekki eins og breska stjórnin vildi. Spurning hvort og hvenær Johnson ætlar að taka ákvörðun, þarf að meta pólitíska og efnahagslega útkomu samnings og samningsleysis.

Í ljósi þess að ekkert gengur að leysa síðustu samningshindranir er farið að gera þrautavararáðstafanir ef ekki semst – ESB hefur þegar boðið Bretum ráðstafanir varðandi samgöngur á láði og í lofti. Og það megi framlengja fiskveiðiréttindi ESB í breskri landhelgi um ár.

Síðustu Brexit-forvöð, í alvörunni?

Síðustu Brexit-forvöð hafa komið og farið eins og dagarnir á dagatalinu. Spurning hvort þetta að sá efa um að semjist sé allt leikrænn upptaktur bresku stjórnarinnar að afrekinu að semja. Og hvort sunnudagurinn verði dagurinn sem svarið fæst um samning eða ekki.