Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Atvinnuleysi eykst enn — 10,6 prósent í nóvember

11.12.2020 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Atvinnuleysi á Íslandi var 10,6 prósent í nóvember. Það var 9,9 prósent í október, 9 prósent í september og 8,5 prósent í ágúst. Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi aukist áfram í desember en þó minna en í nóvember. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu stofnunarinnar.

21,4 prósenta atvinnuleysi á Suðurnesjum

Alls voru 20.906 atvinnulausir í almenna bótakerfinu í lok nóvember og 5.448 á hlutabótum. Atvinnuleysi er áfram langmest á Suðurnesjum, 21,4 prósent, þar sem það heldur áfram að aukast hratt. Þar er það mun meira meðal kvenna en karla, 25,6 prósent hjá konum og 20,9 hjá körlum. Atvinnuleysi er meira meðal kvenna en karla í öllum landshlutum nema á höfuðborgarsvæðinu.

Næstmest er atvinnuleysið á höfuðborgarsvæðinu þar sem það er 10,6 prósent, og var 10,1 prósent í október.

Langtímatvinnuleysi eykst hratt

Langtímaatvinnulausum hefur fjölgað um 2.379 milli ára. Alls höfðu 3.919 hefðbundnir atvinnuleitendur verið án atvinnu í meira en 12 mánuði í lok nóvember, en 1.540 í nóvemberlok 2019. 

Alls bárust Vinnumálastofnun tvær tilkynningar um hópuppsagnir í nóvember þar sem 40 starfsmönnum var sagt upp störfum, 27 í fjármálastarfsemi og 13 í heilbrigðis- og félagsþjónustu.

24 prósent atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara

Í skýrslunni segir að erlendir atvinnuleitendur í almenna atvinnuleysiskerfinu hafi verið 8.553 í lok nóvember. Fjöldinn samsvari um 24 prósenta atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara.

Þá kemur fram að í nóvember hafi stofnunin gefið út 168 atvinnuleyfi til útlendinga til að starfa hér á landi. Af útgefnum leyfum hafi 53 verið til erlendra ríkisborgara sem eru nýkomnir á íslenskan vinnumarkað og 115 leyfi verið framlengd.

Samkvæmt skráningu til Vinnumálastofnunar hafi 25 erlend þjónustufyrirtæki verið með starfsemi hér í nóvember 2020 með samtals 196 starfsmenn.