Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Vilja minna regluverk og meiri sveigjanleika

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Minnka þarf regluverk og auka sveigjanleika fyrir matvælaframleiðendur hér á landi. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri matvælastefnu fyrir Ísland til ársins 2030 sem kynnt var í morgun. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynntu stefnuna.

Matvælastefnan er afrakstur tveggja ára vinnu. Með henni er í fyrsta sinn mörkuð stefna varðandi matvæli fyrir Ísland, en markmið hennar er að tryggja aðgengi að góðum mat, auka heilbrigði þjóðarinnar í sátt við umhverfi og náttúru og leggja grunn að meiri verðmætasköpun í matvælaframleiðslu hér á landi. Við mótun stefnunnar voru fimm lykilþættir hafðir að leiðarljósi: Verðmætasköpun, neytendur, ásýnd og öryggi, umhverfið og lýðheilsa. Í stefnunni er einnig sett fram aðgerðabundin áætlun sem miðar að því að mæta áskorunum framtíðarinnar. 

„Matvælastefnan er byggð á fimm lykilþáttum sem miða að því að við séum að nýta tækifæri til framleiðslu, sölu og neyslu á hollum og góðum matvælum. Tækifæri Íslands til matvælaframleiðslu og tengdra greina eru gríðarleg og ég held að Ísland hafi tækifæri til að vera í fremstu röð sem matvælaland,“  segir Vala Pálsdóttir, formaður verkefnisstjórnar um mótun stefnunnar.

Holl og hrein matvæli

Vala segir að í skýrslunni sé fyrst og fremst horft til þess að Ísland sé samkeppnishæft, enda tryggi það áframhaldandi hagsæld.

„En hins vegar held ég að styrkur Íslands liggi fyrst og fremst í því að við getum byggt á náttúru og auðlindum sem við höfum verið að nýta á sjálfbæran hátt. Við erum líka með mikinn hreinleika í okkar framleiðslu. Og ég held að þetta kjarnist í því að Ísland getur verið mjög framarlega í framleiðslu á hollum og hreinum matvælum.“

Í skýrslunni eru lögð drög að 30 aðgerðum sem eiga að styðja við stefnuna.

„Í því tökum við meðal annars á því að liðka fyrir innlendri framleiðslu. Við viljum minnka regluverkið þannig að það sé meiri sveigjanleiki í kerfinu, bæði fyrir smáframleiðendur og í raun alla framleiðslukeðjuna. En ég held að ríkisstjórnin fái það verkefni núna að vinna úr þessum tillögum. Sumt er reyndar komið af stað sem er gott. Og ég held að við getum horft mjög björtum augum til framtíðar,“ segir Vala.