Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tímamótastyrkur til rannsóknarverkefnis á vegum LHÍ

Mynd: - / LHI

Tímamótastyrkur til rannsóknarverkefnis á vegum LHÍ

10.12.2020 - 10:42

Höfundar

Rannsóknarverkefni Þórhalls Magnússonar prófessors, á sviði snjallhljóðfæra og gervigreindar, hefur hlotið tvær milljónir evra í styrk frá Evrópska rannsóknaráðinu. Þetta er hæsti styrkur sem rannsóknaráðið veitir einstaklingum sem þykja skara fram úr í störfum sínum.

Verkefnið heitir Snjallhljóðfæri: að skilja gervigreind 21. aldar í gegnum skapandi tónlistartækni og verður hýst hjá Listaháskóla Íslands. Það boðar tímamót fyrir skólann og rannsóknir á fræðasviði lista hér á landi. Rannsóknin stendur í fimm ár og verða þrír doktorsnemar, tveir nýdoktorar og hjóðfærahönnuður ráðnir til verkefnisins.

Þórhallur Magnússon er deildarforseti tónlistardeildar Sussex-háskóla í Englandi og rannsóknaprófessor við Listaháskóla Íslands. Hann hefur unnið í rannsóknum á tölvutónlist og gervigreind í yfir tvo áratugi og hefur á síðustu árum fært sig lengra í átt að heimspekilegri þýðingu þess að nota gervigreind við skapandi vinnu.

„Hvernig túlkum við það þegar börnin okkar teikna Óla Prik í einhverju smáforriti og útkoman líkist verkum Van Gogh, eða unglingar spila inn melódíu sem er útsett í stíl Mahlers?“ spyr Þórhallur. „Hvaða orð notum við til að tala um þessa hluti? Hver er skapandinn þegar ljóðskáld notar gervigreind sem hefur lesið allar útgefnar íslenskar bókmenntir til að hjálpa sér við ljóðasmíð?“

Til að svara þeim hefur hann þróað verkefni í þverfaglegu samstarfi við sérfræðinga í tónlist, heimspeki, hugrænum vísindum, tölvuvísindum og félagsfræði. Í verkefninu er hljóðfæri notað sem brennipunktur til að rannsaka þessar spurningar. Rannsóknarteymið smíðar hljóðfærin, notar þau í tónlistarflutningi og skapar grundvöll fyrir þátttöku almennings.

Nýjustu listir og vísindi

Listirnar eru góður grundvöllur til að skoða áhrif vísinda á samfélagið, segir Þórhallur í viðtali í Lestinni á Rás 1. Listamenn séu yfirleitt fyrstir til að færa sér í nyt nýjustu tækni og prófa sig áfram og það sama sé að gerast með gervigreind í dag.

„Það eru að koma gífurlegar byltingar í vélarnámi (e. machine learning) og það er skemmtilegt að sjá tónlistarmenn taka þetta í sínar hendur og nota sem tæki til sköpunar á tónlist ... Tónlist hefur í raun og veru alltaf verið grundvöllur til að skoða nýjar rannsóknir og ný vísindi. Það byrjar með Pýþagórasi, hann var að skoða stærðfræði og auðvitað notaði hann tónlist til að skoða það. Hann var að búa til skala og reyna að skilja hlutföll og víbrasjónir og annað mörgum öldum fyrir Krist. Svo heldur þetta áfram í gegnum miðaldir og á 17. öld eru vísindamenn farnir að nota tæki meira og meira í að skilja heiminn og þeir notuðu hljóðfæri í þeirri viðleitni líka. Svona heldur þetta áfram þangað til í dag erum við að skoða gervigreind og nýjustu hugarvísindi oft í gegnum tónlist.“

Framlenging líkama og huga

Tæknin hefur ætíð verið framlenging á líkamanum segir Þórhallur, hvort sem það er skófla, glas eða hamar. „Svo erum við núna að fá meiri og snjallari tækni sem getur framlengt það sem við gerum með líkamanum okkar. Tölvan getur leiðrétt það sem skurðlæknar eru að gera í rauntíma, þannig að hún er að túlka okkar hreyfingar og getur verið filter á milli þess sem við viljum og þess sem gerist. En það vantar að skoða hvernig okkur líður með þetta og hvernig við túlkum það að allt í einu er eitthvað komið á milli okkar og heimsins sem er að túlka okkar vilja og er framlenging á okkar huga. Hér er það tónlistin sem getur orðið skemmtilegt svæði til að skoða það út frá fyrirbærafræði, samband manneskjunnar við tækni og svo samband manneskjunnar við aðrar manneskjur í gegnum gervigreind og svo hvernig við skoðum heiminn með verkfærum, hljóðfærum, sem eru snjöll.“

Til að skilja betur áhrif gervigreindar á mannlegt samfélag þarf þverfaglegt samstarf að eiga sér stað, segir Þórhallur. „Við verðum að fá til liðs við okkur heimspekinga, sálfræðinga, vísindamenn í hugrænum vísindum, tónlistarmenn og almenning. Þess vegna höfum við búið til prógramm þar sem við setjum upp rannsóknir og lítil verkefni með þátttöku fjölda vísindamanna um allan heim.“

Samstarfsaðilar verkefnisins hér á landi eru meðal annarra Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík og Mengi, en meðal erlendra samstarfsaðila eru Cambridge Digital Humanities, Sussex Humanities Lab og Ircam. 

Hjálpartæki tónlistarlífsins

„Við höfum áhuga á að gera rannsóknir á hljóðfærum sem læra á notandann, sem þróast í höndum þess sem spilar á hljóðfærið og öðlast karakter og líf eftir því hvernig þú notar hljóðfærið,“ segir Þórhallur. „Það má segja að öll akústísk hljóðfæri séu þannig. Fiðla eða gítar sem þú kaupir mun þróast í þínum höndum og taka á sig karakter eftir því hvernig þú spilar á hljóðfærið. Það mætti þá segja að stafræn hljóðfæri, einhverjir MIDI-controllers eða eitthvað svoleiðis, séu ekki þannig af því þeir eru búnir til úr plasti og með glerskjám. En með þessari tækni má fara að hugsa aftur að þessi stafrænu hljóðfæri fái ákveðinn karakter af því að við getum farið að kenna þeim, þróa þeirra karakter með því að spila á þau.“

En er tölvan að taka yfir hlutverk tónskálda eða tónlistarmanna í sköpunarferlinu? Þórhallur segir að svo sé ekki.

 „Þetta er frekar spurning um að tónskáldið fari að nota þessa tækni sem hjálpartæki í að semja nýja tónlist. Fyrir tónlistarmenn sem eru búnir að öðlast þekkingu eða þjálfun er þetta gífurlega skemmtilegt ... Álíka skemmtilegt og fyrir gítarleikara að upplifa rafmagnsgítarinn í fyrsta skipti. Þetta er eitthvað nýtt sem er gaman og þróast áfram og býður upp á nýja möguleika til að semja og spila tónlist.“