Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þurfum að vera undirbúin fyrir að bíða eftir bóluefninu

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Kórónuveirufaraldurinn er nú á góðri niðurleið og framhaldið er í okkar höndum. Óvíst er hversu hratt bóluefnið mun berast til landsins, gera má ráð fyrir að það geti tekið langan tíma. Ávísunum á þunglyndislyf hefur fjölgað um 8% núna í þriðju bylgju faraldursins. Þetta er meðal þess sem fram kom á upplýsingafundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og landlæknis í morgun.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, Alma Möller landlæknir og Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn voru á fundinum.

„Geymum hefðirnar þessi jólin og sættum okkur við að jólin verði öðruvísi,” sagði Rögnvaldur um hátíðahaldið í ár. Í lok fundarins sagði hann að framhaldið væri í okkar höndum. „Sjáum hvað er að gerast í löndunum í kringum okkur. Við viljum ekki vera þar.“

Þórólfur sagði að færri sýni hefðu verið tekin í gær en vanalega, eða um 800 og hvatti þá sem teldu sig finna fyrir einkennum að fara í sýnatöku. Hlutfall jákvæðra sýna hjá fólki með einkenni var 0,5%, en þegar hlutfallið var sem hæst var það um 5%.

Hann sagði að franski stofn veirunnar væri ennþá uppistaðan í faraldrinum

„Við getum sagt að faraldurinn hafi verið á góðri niðurleið. Lítið má út af bregða,“ sagði Þórólfur. Hann  ræddi þær nýju sóttvarnaráðstafanir sem tóku gildi á miðnætti. Það er tvennt í þeim sem ég vil gera að umræðuefni. Í fyrsta lagi varðandi opnun sundstaða en ekki líkamsræktarstöðva,“ sagði Þórólfur.

Hann sagði að meiri áhætta væri fyrir því að fá COVID í líkamsrækt en sundi og vísaði í gögn sem fjallað var um í gær sem sýna fram á að sjö  sinnum fleiri smit hafa greinst í líkamsræktarstöðvum en sundi. Hann sagði að líkamsræktarstöðvar væru flokkaðar í efsta áhættuflokki víða um heim á meðan sund væri í þeim lægsta og minnti á að sami háttur hefði verið hafður á í vor þegar slakað var á sóttvörnum. „Þannig að þetta er ekkert einsdæmi,“ sagði sóttvarnalæknir.

Hann ræddi einnig hvers vegna íþróttir væru nú  einungis leyfðar hjá efstu deildum og afreksfólki. „Eftir þessu var kallað hjá íþróttahreyfingunni. Ef allt íþróttastarf hefði verið leyft, hefði það ekki verið varfærnar tilslakanir.“

Alma D. Möller landlæknir sagði að sýklalyfjaávísunum hefði fækkað um 25% í faraldrnum. Það sýndi að öflugar sóttvarnir virkuðu gegn ýmsum veirusýkingum. „Í september voru mælingar sem sýna andlega líðan heldur betri en mánuðina á undan. Svo lækka mælingarnar aftur í október og nóvember,“ sagði Alma. 

Hún sagði að þeim hefði fækkað sem meta andlega heilsu sína mjög góða eða góða og einnig þeim sem meta hana slæma. Þeim fækkar áfram sem sofa of lítið og þá er miðað við sex tíma eða minna á nóttu fyrir fullorðna. Þá mælist einmanaleiki minni og ekki er aukning á streitu.

„Við höfum alltaf sagt að þó að meðaltalið sé gott getur faraldurinn og aðgerðir tengdar honum hitt mismunandi hópa misjafn fyrir,“ sagði Alma. 

Konur hafa það verr en karlar og yngsti hópurinn hefur það verr en þeir eldri Aukning í ávísunum þunglyndislyfja hefur verið 4% í fyrstu bylgju og 8% í þeim síðari. „Það er eðlilegt að við finnum fyrir vanlíðan og óöryggi á tímum sem þessum,“ sagði landlæknir.

Þórólfur sagði óvíst hversu hratt bóluefnaskammtanir myndu berast til landsins. „Það væri best að fá skammtana hratt, en við þurfum að vera undirbúin undir það að það gæti tekið langan tíma að fá bóluefnið sem okkur er ætlað. Það fer líka eftir þróun faraldursins innanlands,“  sagði Þórólfur.