Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Stefna að 55 prósenta samdrætti í losun

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Stjórnvöld hyggjast stefna að 55 prósenta samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 en ekki 40 prósentum eins og stefnan var sett á í upphafi kjörtímabils.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hyggst kynna þrjú ný markmið í loftslagsmálum á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna á laugardag. Stefna á að því að losun gróðurhúsalofttegunda verði 55 prósent minni árið 2030 en hún var árið 1990. Þegar ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var mynduð síðla árs 2017 var stefnt að 40 prósenta samdrætti. Samhliða þessu á að efla aðgerðir í landnotkun til að auðvelda Íslandi að ná markmiði um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 og auka áherslu á loftslagstend þróunarsamvinnuverkefni.

Þessu segir Katrín frá í grein í Morgunblaðinu í dag. Hún segir að loftslagsvá sé stærsta áskorun samtímans, takmarka verði skaðann og tryggja framtíð mannkyns og lífríkisins alls.