Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Smitrakningateymið stendur við tölur sínar um smit

10.12.2020 - 21:45
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Smitrakningateymi almannavarna stendur við þær tölur sem birtust í fjölmiðum í gær þar sem fram kom að sjöfalt fleiri smit væru rakin til líkamsræktarstöðva en sundlauga. Smit hafa verið rakin til þriggja líkamsræktarstöðva í þriðju bylgju faraldursins. Hópsýking hjá hnefaleikafélagi í Kópavogi er ekki inni í þessari tölu.

Mikillar óánægju gætir meðal forsvarsmanna líkamsræktarstöðva eftir að ljóst var að þær fengju ekki að opna, samkvæmt reglugerð sem tók gildi í dag. 

Fréttastofa óskaði í gær eftir tölum um fjölda smita í líkamsræktarstöðvum annars vegar og sundlaugum hins vegar. Bein smit frá líkamsrækt voru 36 en bein smit frá sundlaugum 5. 

Gestur Jónsson, lögmaður líkamsræktarstöðvarinnar World Class, sendi fréttastofu orðsendingu í gærkvöld þar sem hann sagði fréttina um smitin vera skrýtna og efaðist um rétt væri sagt fra fjölda smita í sundlaugum. Nefndi þar meðal annars smit sem rekja mætti til morgunsunds í lauginni að Hrafnagili í Eyjafirði.

World Class birti orðsendinguna á Facebook-síðu sinni síðdegis.

Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri hjá ríkislögreglustjóra, segir að smitrakningateymið standi við sínar tölur og að þær tölur sem birtust í fjölmiðlum í gær nái eingöngu yfir þriðju bylgju. Smit hafi verið rakin til þriggja líkamsræktarstöðva. Verið sé að yfirfara tölurnar en ekkert bendi til þess að þær séu rangar.

Þessar tölur var einnig að finna í greinargerð sóttvarnalæknis sem heilbrigðisráðuneytið birti á vef sínum í dag. Þar kemur fram að þetta séu þau smit sem starfsfólk rakningateymis hafi tengt saman. Niðurstöður úr raðgreiningum séu ekki með í þessum tölum.

Sóttvarnalæknir segir í greinargerðinni að aðstæður í líkamsræktarstöðvum skapi meiri áhættu á smiti og dreifingu smits heldur en aðstæður í sundlaugum ef aðgangur er takmarkaður þannig að hægt sé að virða fjarlægðarmörk.