Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hætta á mengun úr minkagröfum í grunnvatni

10.12.2020 - 19:10
Erlent · COVID-19 · Danmörk · Evrópa · mengun · Minkar · vatn
epa08807895 Killed minks are buried at Karup Military Airport in Jutland, Denmark, 08 November 2020. To prevent infection from spreading from the animals, the animals are encapsulated in layers of calcium. So far, almost 1, 9 million mink have been killed. All mink in Denmark are killed in connection with Covid-19, due to fear of mutation in coronavirus.  EPA-EFE/Bo Amstrup  DENMARK OUT
 Mynd: EPA
Vísbendingar eru um að grunnvatn hafi mengast vegna grafinna minka í Kølvrå við Viborg og Bovtrup við Holstebro í Danmörku. Þetta sýna niðurstöður rannsóknar sem Jarðfræðistofnun Danmerkur og Grænlands og Tæknistofnun Danmerkur gerðu fyrir dönsku umhverfisstofnunina.

Haft er eftir Claus Kjøller, deildarstjóra hjá Jarðfræðistofnuninni, í Berlingske að hætta á mengun í grunnvatni sé yfirvofandi. „Svo gæti einnig vel verið að grunnvatnið sé nú þegar mengað,“ segir deildarstjórinn. Gera þarf nánari rannsóknir til að komast að því hvort grunnvatn sé orðið mengað og lýsti umhverfisstofnunin því yfir í gær að boraðar hafi verið holur og að verið væri að rannsaka þessi tvö svæði. 

Fyrirskipað var að allir minkar í landinu skyldu aflífaðir eftir að stökkbreytt COVID veira var greind á um 200 búum. Eftir á kom í ljós að ekki var lagaheimild til staðar fyrir stjórnvöld til að gefa slíka skipun út og eru minkabændur mjög ósáttir við aðgerðir stjórnvalda í málinu. 

Segja mikilvægt að loka gröfunum betur

Minkahræin voru urðuð og á nokkrum stöðum var ekki grafið nógu þykkt lag yfir þá og sandurinn var léttur í sér. Þegar loft myndaðist í hræunum þrýstust þau aftur upp á yfirborð jarðar. Sérfræðingarnir sem unnu að skýrslunni segja mikilvægt að loka gröfunum. Það hindri að regnvatn berist ofan í grafirnar, sem geti flýtt fyrir því að skaðleg efni leki út í grunnvatnið. 

Þingnefnd rannsakar minkamálið

Danska þingið samþykkti með miklum meirihluta í dag að setja á fót rannsóknarnefnd sem á að velta við öllum steinum í minkamálinu. Nefndinni verður heimilt að kalla til sín bæði ráðherra og embættismenn.