Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

ESB býður frestun aðgerða

10.12.2020 - 19:49
Mynd: EPA-EFE / EPA POOL
Evrópusambandið bauð í dag Bretum að halda reglum óbreyttum í hálft ár til að koma í veg fyrir að samskipti og samgöngur fari í hnút um áramótin. Svartsýni ríkir um að samningar takist á milli Breta og Evrópusambandsins.

Tilboð ESB um óbreytt ástand

Evrópusambandið bauð Bretum í dag að gera engar breytingar á farþega- og vöruflutningum á fyrri helmingi næsta árs þó að ekki tækjust samningar um framtíðarsamskipti EBS og Bretlands. Skilyrði væri að Bretar breyttu ekki lögum og reglum til að bæta samkeppnisstöðu sína á sama tíma. 

Árangurslaus kvöldverðarfundur

Kvöldverðarfundur Boris Johnsons, forsætisráðherra Bretlands, og Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, var árangurslaus að því undanskildu að þau ákváðu að samningamenn héldu áfram að hittast fram á sunnudag. Simon Coveney, utanríkisráðherra Írlands, sagði síðdegis að meiri bölsýni gætti hjá ríkjum ESB vegna stöðunnar og gremju gætti vegna þess hvernig komið væri. 

Vilja forðast að allt fari í hnút

Í tilkynningu frá ESB síðdegis sagði að lögum yrði breytt svo flug gæti haldið áfram og að bresk farartæki mættu áfram flytja vörur á vegum innan ESB-ríkja. Sagði að bandalagið byði Bretum þetta til að koma í veg fyrir að öll samskipti og samgöngur færu í hnút um áramótin. Talsmaður bresku stjórnarinnar sagði að hún ætlaði að íhuga boðið en væri vel búin undir að engir samningar tækjust.

Johnson bölsýnn

Boris Johnson sagði í kvöld að hann teldi allar líkur á því að Bretar færu út án viðskiptasamnings, það sem væri í boði af hálfu ESB þýddi að Bretar ættu á hættu refsiaðgerðir eða gjöld ef þeir fylgdu ekki reglum sambandsins.