Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Eitt ár frá óveðrinu mikla: Afhjúpaði veikleika

10.12.2020 - 22:25
Mynd: RÚV / RÚV
Eitt ár er í dag frá einhverju versta veðri hér á landi í áratugi. Ráðist hefur verið í fjölmargar framkvæmdir til þess að styrkja innviði sem brugðust í óveðrinu. Upplýsingafulltrúi Landsnets vonar að fyrirtækið sé betur í stakk búið til þess að takast á við álíka hamfarir í dag en fyrirtækið var þegar veðrið skall á. Hún segir að veðrið hafi afhjúpað veikleika í raforkukerfinu.

10. desember í fyrra skall á eitthvert mesta óveður í manna minnum hér á landi. Hættustigi almannavarna var lýst yfir á Norðurlandi vestra og eystra, þegar veðurspár gáfu vísbendingar um hve vont veðrið yrði. Rauðar viðvaranir voru í gildi fyrir Strandir, Norðurland eystra og Norðurland vestra og var það í fyrsta skipti sem slíkar viðvaranir voru gefnar út. Appelsínugul viðvörun var í gildi fyrir aðra landshluta. 

Ofsaveðrið skall svo á af fullum þunga síðdegis 10. desember. Samgöngur fóru úr skorðun á öllu landinu og björgunarsveitir höfðu í nógu að snúast. Ungur piltur lést í óveðrinu, þegar hann féll í Núpá í Eyjafirði. Þá drápust um hundrað hross í illviðrinu.

Nauðsynlegt að styrkja kerfið

Rafmagnslaust varð víða og dreifikerfi rafmagns var verulega laskað eftir stórviðrið.

„Óveðrið og afleiðingar þess sýndi okkur og afhjúpaði svo um munaði þá veikleika sem eru í raforkukerfinu á Íslandi. Og sýndi okkur kannski enn frekar fram á það hvað það er nauðsynlegt að styrkja kerfið og að í atburðum eins og þessum getum við tryggt öllum íbúum landsins öruggt rafmagn,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets.

Á þessu ári sem er liðið er hefur Landsnet flýtt mörgum verkefnum.

„Við höfum forgangsraðað framkvæmdunum okkar þannig að þær framkvæmdir sem snúa að styrkingu á kerfinu, þær hafa færst framar í röðinni. Þannig að vonandi erum við betur í stakk búin í dag til að takast á við atburði eins og þennan,“ segir Steinunn.

„Rosalega stórt“

Fjölmargir bændur urðu fyrir tjóni í óveðrinu og var ákveðið að veita 500 milljónum aukalega í Bjargráðasjóð til þess að greiða þeim bætur. Samkvæmt upplýsingum frá sjóðnum er enn unnið úr umsóknum. Þegar þeirri vinnu er lokið og þegar fjármagnið hefur skilað sér til sjóðsins verður hægt að greiða út bætur.

Hjá Vegagerðinni fengust þær upplýsingar að þeirra vinna hefði fyrst og fremst snúið að því að laga sjóvarnargarða þar sem sjór flæddi inn. Búið er að laga garða á sex stöðum og þrjú verkefni sem tengjast óveðrinu verða boðin út eftir áramót. 

Ríkisstjórnin skipaði starfshóp til þess að meta hvernig efla mætti innviði flutnings- og dreifikerfis raforku og fjarskipta. Hópurinn skilaði 540 tillögum í lok febrúar. Benedikt Árnason, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu sem fór fyrir hópnum, segir að almennt gangi verkefni í áætluninni vel, og að afleiðingar sambærilegs veðurs hefðu minni áhrif nú vegna úrbóta á raforku- og fjarskiptakerfum. Hins vegar sé margt sem eigi eftir að gera.

„Þegar maður horfir til baka, á þennan dag fyrir ári síðan, þá er það sem situr eftir hvað þetta var í raun og veru rosalega stórt. Hvað þetta voru margar truflanir, hvað þær voru stórar og hvað þær voru víðtækar. Við vorum að berjast á öllum vígstöðvum um allt land,“ segir Steinunn.