Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Eðlilegt að finna fyrir vanlíðan í faraldrinum“

Auður Axelsdóttir
 Mynd: Ljósmynd - Samsett mynd
Heilbrigðisyfirvöld víða um heim vara við sjúkdómsvæðingu vanlíðanar vegna kórónuveirufaraldursins og aukinni notkun geðlyfja.  Auður Axelsdóttir, framkvæmdastjóri Hugarafls,segir eðlilegt að finna fyrir vanlíðan í kórónuveirufaraldrinum og segir fréttir af aukinni notkun þunglyndislyfja ekki koma á óvart. Búast megi við að hún eigi eftir að aukast enn frekar.

Alma D. Möller landlæknir sagði á upplýsingafundi Almannavarna í morgun að notkun þunglyndislyfja hefði aukist um 8% núna í þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins. Auður segir að það sé til marks um sjúkdómsvæðingu eðlilegrar vanlíðanar. 

„Það virðist vera að við ætlum að fara þá leið að sjúkdómsvæða vanlíðan okkar í COVID. Það er svo eðlilegt að við séum áhyggjufull, kvíðin, jafnvel svefnlaus. Og óttaslegin,“ segir Auður.

Hún segir að einn af hverjum fimm Bandaríkjamönnum sem hafi verið greindur með COVID-19 hafi fengið greiningu á geðrænum vanda innan þriggja mánaða eftir COVID-greininguna. Miðað við þróun í geðheilbrigðismálum hér á landi undanfarin ár megi búast við því að þeim muni fjölga talsvert sem séu með greiningu á einhverskonar geðrænum vanda.

Segir að vanlíðan sé aldrei komin til að vera

„Það virðist vera að við séum mjög snögg að greina tilfinningalegan vanda sem sjúkdóm. Okkar geðheilbrigðiskerfi er svolítið byggt í kringum sjúkdómsmódel og ég hef þá trú að við ættum að breyta hugmyndafræðinni: við þurfum öll að ganga í gegnum tilfinningalegan vanda, en við erum ekki með sjúkdóma.“

Hún segir mikilvægt þegar fólk finni fyrir vanlíðan að setjast niður með sínum nánustu og leita leiða til að bæta úr. „Hjálpa hvoru öðru þannig. Sjúkrahús og lyf geta sannarlega leyst vanda, en þau leysa ekki þetta daglega líf sem við erum að kljást við alla dag. Vanlíðan er aldrei komin til að vera.“

Sérstaklega hugað að þeim sem hafa misst vinnuna

Auður segir að hafa verði í huga að fólk sem byrji að taka þunglyndislyf þurfi einhverntímann að hætta að hætta á þeim. Það geti verið mikið mál og það sé ekki alltaf kynnt fyrir fólki í upphafi lyfjagjafar. Hún segir orð landlæknis um aukna notkun þunglyndislyfja ekki hafa komið sér á óvart. „Og ég er nokkuð viss um að það á eftir að aukast töluvert meira. Fólk er afgreitt mjög snögglega þegar það kemur og talar um vanlíðan.“

Auður hefur viðrað þetta sjónarmið við heilbrigðisyfirvöld, en hún á sæti í geðráði sem heilbrigðisráðherra stofnaði í vor vegna faraldursins. Hún segir að þar hafi sérstaklega verið rætt um þá sem nú hafa misst vinnuna. „Það væri svo mikilvægt að grípa það með einhverju öðru en veikindamiðuðum aðgerðum.“