Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sauðfjár-og kúabændur fá milljarð vegna COVID-19

09.12.2020 - 18:56
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Meirihluti fjárlaganefndar leggur til að sauðfjár-og kúabændur fái rúman milljarð til að mæta vanda þeirra vegna kórónuveirufaraldursins. Í nefndarálitinu kemur fram að úrræði stjórnvalda hafi ekki gagnast bændum nema að takmörkuðu leyti. Því sé talin þörf á að grípa til sértækra aðgerða til að mæta „erfiðri stöðu stéttarinnar í kjölfar heimsfaraldurs.“ Áætlað er að framleiðsluvirði sauðfjárbænda og kúabænda dragist saman um 14 prósent milli ára.

Í nefndarálitinu kemur fram að stuðningur ríkisins fari fram í gegnum svokallaða búvörusamninga. Þar séu styrkjaflokkar sem tengist vanda bænda. 

Og vandi þeirra er síðan rakin nokkuð ítarlega í álitinu. Dregið hafi úr eftirspurn vegna verulegrar fækkunar ferðamanna og er sá samdráttur talinn jafngilda rúmlega þrjátíu þúsund færri neytendum í landinu. Sala á kindakjöti sé 17,9 prósent minni en á síðasta ári og sala síðustu þriggja mánaða 30 prósent minni en á sama tíma í fyrra.  Þá hafi ullarverð lækkað um 13, 5 prósent.

Jafnframt er bent á að vísbendingar séu um talsverða birgðasöfnun í nautakjöti. 

Báðar greinar hafi átt í erfiðleikum undanfarin ár og þá sérstaklega sauðfjárrækt sem hafi farið í gegnum hrun afurðaverðs á síðustu árum. „Hafa ýmsir velt því fyrir sér hvort greinin sé komin að þolmörkum.“ Staða þessara greina hafi því verið erfið áður en heimsfaraldurinn skall á.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV