
Sauðfjár-og kúabændur fá milljarð vegna COVID-19
Í nefndarálitinu kemur fram að stuðningur ríkisins fari fram í gegnum svokallaða búvörusamninga. Þar séu styrkjaflokkar sem tengist vanda bænda.
Og vandi þeirra er síðan rakin nokkuð ítarlega í álitinu. Dregið hafi úr eftirspurn vegna verulegrar fækkunar ferðamanna og er sá samdráttur talinn jafngilda rúmlega þrjátíu þúsund færri neytendum í landinu. Sala á kindakjöti sé 17,9 prósent minni en á síðasta ári og sala síðustu þriggja mánaða 30 prósent minni en á sama tíma í fyrra. Þá hafi ullarverð lækkað um 13, 5 prósent.
Jafnframt er bent á að vísbendingar séu um talsverða birgðasöfnun í nautakjöti.
Báðar greinar hafi átt í erfiðleikum undanfarin ár og þá sérstaklega sauðfjárrækt sem hafi farið í gegnum hrun afurðaverðs á síðustu árum. „Hafa ýmsir velt því fyrir sér hvort greinin sé komin að þolmörkum.“ Staða þessara greina hafi því verið erfið áður en heimsfaraldurinn skall á.