Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Myndum ekki láta beinbrotinn bíða lengi eftir greiningu

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Við myndum aldrei láta einstakling bíða í eitt til eitt og hálft ár til að athuga hvot hann væri beinbrotinn. Við eigum heldur ekki að bjóða ungu fólki upp á slíkan biðtíma eftir greiningu á sálrænum vanda. Þetta sagði Bóas Valdórsson sálfræðingur í Menntaskólanum við Hamrahlíð á þingi heilbrigðisráðherra um framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum í morgun. Hann sagði að hér á landi væri notast við úrelt tæki til að mæla þroska og geðheilsu fólks.

Bóas tiltók þar fimm atriði sem hann myndi vilja verða að veruleika eftir tíu ár, árið 2030, varðandi þróun geðheilbrigðisþjónustu við ungt fólk. Þau eru: Sálfræðiþjónusta í alla framhaldsskóla, efling stoðþjónustu í framhaldskólum, að fjárhagur verði ekki fyrirstaða fyrir ungt fólk sem þyrfti geðheilbrigðisþjónustu, aðgengi að greiningum á ADHD og námserfiðleikum yrði bætt og uppfæra yrði þau sálfræðileg mælitæki sem notuð eru hér á landi. 

Bóas sagði að með því að efla sálfræðiþjónustu við ungt fólk mætti draga úr álagi annars staðar í heilbrigðiskerfinu. Viðunandi námsstuðningur við ungt fólk gegndi miklu forvarnarhlutverki varðandi geðheilsu.

Biðin er óafsakanleg

„Það er mikilvægt að ungu fólki sé tryggt aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu með skjótum hætti með lágum tilkostnaði. Biðlistar eru eitur í mínum beinum og það er í mínum huga óafsakanlegt að ungt fólk bíði í eitt til eitt og hálft ár eftir þjónustu sem þau eiga rétt á.“

Bóas sagði það vera von sína að biðlistar yrðu aflagðir eftir tíu ár, það að nota þá sem mælikvarða á þörf fyrir þjónustuna skilaði engum árangri, heldur þvert á móti. Nær væri að líta til fjölda fólks í hverjum árgangi til að áætla þörfina fyrir geðheilbrigðisþjónustu. Grundvallarréttindi ungs fólks væru brotin með því að láta það bíða eftir grunnheilbrigðisþjónustu. „Ungt fólk býr við takmarkaðan fjárrhag og getur ekki galdrað fram tugi eða hundruð þúsunda til að fá lágmarksgreiningu,“ sagði Bóas.

Hefur ekki efni á að bíða í tvö ár

Hann sagði mikilvægt að ungt fólk hefði greiðan aðgang að greiningu og meðferð á ADHD og námserfiðleikum. Ungt fólk stæði frammi fyrir síauknum kröfum og oft kæmi ADHD fram samfara auknum kröfum. „Þetta eru skilgreindir erfiðleikar sem hafa hamlandi áhrif á líf fólks,“ sagði Bóas. Hann nefndi dæmi um 19 ára menntaskólanema sem leitaði til hans og þorði ekki að fara í háskóla þar sem hann ætti í erfiðleikum með einbeitingu. „Hann hefur auðvitað ekki efni á að bíða í hatt í tvö ár eftir því að hið opinbera sinni þessum vanda,“ sagði Bóas.

„Geðheilbrigðisjónusta á ekki að mæta afgangi. Við myndum aldrei láta einstakling bíða í eitt til eitt og hálft ár til að athuga hvot hann væri beinbrotinn.“

Úrelt mælitæki

Bóas sagði að flest þau þroskamælitæki, sem stuðst væri við hér á landi, væru ýmist úrelt, ófáanleg eða þau yrðu ómarktæk innan fárra ára. „Þetta eru próf sem eru notuð til að meta geðrænan vanda, þroskahömlun og fötlun. Þau eru höfð til hliðsjónar þegar verið er að meta styrki frá Tryggingastofnun og þjónustuþörf hins opinbera. Það er nauðsynlegt að tryggja að þau séu uppfærð.“