Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ljósahátíð Gyðinga hefst 10. desember

Mynd með færslu
 Mynd: Gil Dekel - Wikimedia Commons

Ljósahátíð Gyðinga hefst 10. desember

09.12.2020 - 18:18

Höfundar

Hin gyðinglega hátíð Hanukka, sem kölluð hefur verið ljósahátíð á íslensku, hefst við sólarlag 10. desember og henni lýkur 18. desember. Hátíðin stendur í 8 daga og nætur, og níu arma ljósastika gegnir lykilhlutverki: átta kerti, og eitt aukakerti í miðjunni til þess að kveikja á hinum.

 

Kertið í miðju ljósastikunnar er kallað „shamash“ og fyrsta daginn er það notað til þess að kveikja á einu kerti, næsta dag á tveimur og svo koll af kolli þangað til síðasta daginn að kveikt er á öllum kertunum. Tónlist er líka mikilvægur hluti af ljósahátíðinni og margir söngvar til sem tengjast henni.

Uppreisn Makkabea

Hátíðin er haldin í tilefni af sigri sem Gyðingar unnu á 2. öld fyrir Krist þegar þeim tókst að ná Jerúsalem úr höndum Selevkída sem höfðu bannað Gyðingatrú og rænt musterið helgigripum sínum og vanhelgað það. Þeir Gyðingar sem fóru fyrir uppreisninni gegn Selevkídum voru kallaðir Makkabear og helstur þeirra var herforinginn Júdas Makkabeus. Þegar tekist hafði að frelsa musterið var það vígt að nýju. Frá þessu segir í Makkabeabók sem er ein af apókrýfum ritum Biblíunnar og sr. Árni Bergur Sigurbjörnsson þýddi.

Á sama tíma árs og á sama degi og heiðingjarnir svívirtu helgidóminn var hann endurvígður með söng og leik á hörpu, gígjur og bumbur. Og fólkið allt féll fram á ásjónu sína og tilbað og lofaði himininn sem hafði veitt því sigursæld.

Og síðar segir:

Ákvað Júdas og bræður hans og allur söfnuður Ísraels að árlega skyldi endurvígslu fórnaraltarisins minnst með hátíð og fögnuði og gleði í átta daga frá 25. degi kislevmánaðar.   

Þessi hátíð er Hanukka sem enn hefst á 25. degi kislev-mánaðar samkvæmt hebresku almanaki, en hann er ýmist í nóvember eða desember.

Tónskáld frá ýmsum löndum

Af tónskáldum sem hafa samið söngva tengda ljósahátíðinni má nefna Solomon Ancis, Flory Jagoda og Chaim Ritterband. Ancis var forsöngvari í sýnagógu, fæddur í Úkraínu 1873, en fluttist til Bandaríkjanna upp úr 1920. Hann lést 1945. Flory Jagoda fæddist í Bosníu 1923 og er enn á lífi. Hún er sefardískur Gyðingur, þ.e.a. s. af spænsk-gyðinglegum uppruna og hefur safnað sefardískum söngvum og sjálf samið söngva í svipuðuðum anda. Chaim Ritterband fæddist í Póllandi 1893, en fluttist síðar til Danmerkur. Hann lést 1944. Íslensk-danska þjóðlagasöngkonan Engel Lund, eða Gagga Lund eins og hún var oftast kölluð hér, söng oft Gyðingasöngva og fékk píanóleikara sinn, Ferdinand Rauter, til að útsetja þá. Þar á meðal var Hanúkkasöngurinn „Arum di lichtelach“ (Í kringum ljósin) eftir Ritterband.

Óratóría Händels

Þó að flest tónverk tengd ljósahátíðinni séu eftir Gyðinga er líka til tónverk eftir kristið tónskáld sem fjallar um þessa atburði, enda eiga Gyðingar og kristnir menn margar helgisagnir sameiginlegar og apókrýfu bækur Gamla textamentisins voru lengi hluti af Biblíu kristinna manna. Það kristna tónskáld sem samdi tónverk um uppreisn Makkabea var sjálfur Georg Friedrich Händel. Þetta er óratórían „Júdas Makkabeus“ sem Händel samdi árið 1746 við texta eftir Thomas Morell. Eitt frægasta atriði óratóríunnar er sigurkórinn „See the conqu´ring hero comes“ – „Sjá, hér kemur sigurhetjan“ – sem oft er sunginn einn og sér.                                                                                                       

Bestu jólasöngvarnir eftir Gyðinga

Það eru líka til dægurlög tengd Hanukka og eitt þeirra samdi Tom Lehrer. Hann er fæddur í New York 1928 og er Gyðingur að uppruna, en segir að foreldrar sínir hafi ekki verið sérlega trúneigðir. Árið 1990 samdi Tom Lehrer sönginn „I´m spending Hanukka in Santa Monica“ (Ég ætla að halda Hanukka í Santa Monica) fyrir útvarpsþátt hjá Garrison Keillor. Þegar Garrison kynnti sönginn benti hann hlustendum á það að það vantaði alveg vinsælan Hanukka-söng „– og hvernig stendur á því?“ spurði hann. „Það er af því að á þessum árstíma eru öll bestu Gyðingatónskáldin að semja jólasöngva!“ Þetta er raunar alls ekki fráleitt hjá Garrison, eins og sjá má þegar litið er á þekkta bandaríska jólasöngva. „Rudolph the red nosed reindeer“ og „Rockin´ around the Christmas tree“ eru eftir Gyðinginn Johnny Marks. „The Christmas Song“, öðru nafni „Chestnuts roastin´ on a open fire“ er eftir Gyðinginn Mel Tormé. „Let it snow! Let it snow! Let is snow!“ er eftir Sammy Cahn og Jule Styne sem báðir voru Gyðingar. Svo ekki sé minnst á frægasta jólasönginn af þeim öllum, „Hvít jól“ – „White Christmas“ eftir Gyðinginn Irving Berlin.

Ljósmynd: Gil Dekel.

Í þættinum „Á tónsviðinu“ fim. 10. desember verður flutt tónlist sem tengist Hanukka-hátíðinni.