Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Allar líkur á málshöfðun á hendur ríkinu á næstunni

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Stjórnarmaður hjá Samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði segir allar líkur á að einhverjir höfði mál á hendur stjórnvöldum á næstunni vegna sóttvarnaaðgerða. Samtökin hafa látið vinna lögfræðiálit og nokkrir kráareigendur og veitingahúsaeigendur hafa haft samband við lögmenn.

Mikillar óánægju gætir meðal eigenda kráa og veitingastaða. Krár hafa verið lokaðar í nokkra mánuði á árinu vegna sóttvarnaaðgerða. Hrefna Björk Sverrisdóttir er stjórnarmaður hjá Samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði. 

„Við erum náttúrulega gríðarlega ósátt með nýjustu aðgerðir. Eins og við höfum ávallt sagt þá erum við alltaf tilbúin til þess að takast á við veiruna og fylgjum fyrirmælum yfirvalda. En í þetta skipti skiljum við einfaldlega ekki rökin með því af hverju aðrir geirar fá að slaka svona rosalega mikið á meðan við fáum svona litlar tilslakanir. Veitingahúsin hafa náttúrulega verið opin allan þennan tíma sem faraldurinn hefur verið í gangi og það á líka við um það þegar faraldurinn er á niðurleið. Þannig að okkur finnst frekar augljóst að þessi smit er ekki hægt að rekja til veitingahúsa. Eins og ég segi, það er mjög einkennilegt að við fáum svona lítinn slaka á meðan verslanir, leikhús og aðrir staðir fá að vera með 50 upp í 100 manns í einu hjá sér,“ segir Hrefna.

Hrefna telur að þó svo að hópsýking hafi í haust verið rakin til kráar eigi að vera unnt að opna þær að nýju og setja um þær sérreglur. Hrefna segir að kráareigendur og veitingahúsaeigendur ígrundi málssókn á hendur stjórnvöldum vegna aðgerðanna.

„Það er verið að skoða það og það eru margir að skoða það úr ýmsum áttum. Við sem samtök yrðum aldrei beinn aðili að slíkri málssókn en við erum búin að vera að tala við lögmenn og við erum búin að fá lögfræðiálit og það er verið að skoða þessa hluti enda hafa því miður styrkirnir sem hafa verið boðaðir ekki nýst, þó svo að það sé kannski ekki komin reynsla á það þar sem við höfum ekki ennþá fengið að sækja um tekjufallsstyrkinn. En kannanir sem við höfum verið að taka meðal félagsmanna okkar benda til þess að þessi styrkir nýtast að afar litlu leyti. Það er hreinlega óboðlegt að einkageirinn sé látinn borga fyrir ákvarðanir ríkisstjórnarinnar, sérstaklega þegar afleiðingarnar eru svona miklar. Fjöldi fyrirtækja hefur orðið gjaldþrota á þessu tímabili. Það kæmi mér virkilega á óvart ef það væru ekki einhver mál sem myndu fara af stað á næstunni,“ segir Hrefna.