Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

5 smit rakin til sundlauga – 36 til líkamsræktarinnar

09.12.2020 - 16:20
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
36 smit hafa verið rakin beint til líkamsræktarstöðva en aðeins 5 til sundlauga. Þetta kemur fram í svari ríkislögreglustjóra við fyrirspurn fréttastofu. Sóttvarnalæknir bendir á að það sé ekki bara á Íslandi þar sem líkamsræktarstöðvar eru taldar vera áhættusvæði fyrir smit og að klórvatnið í sundlaugum sé talið drepa veiruna.

Fréttastofa greindi frá því í morgun að forsvarsmenn líkamsræktarstöðva íhuguðu nú málsókn á hendur íslenska ríkinu.  Björn Leifsson, eigandi World Class, birti á Facebook-síðu sinni í dag lögfræðiálit en hann telur lokun líkamsræktarstöðvanna ólöglega. Rætt verður við Gest Jónsson, lögmann World Class, í sjónvarpsfréttum klukkan 19.

Líkamsræktarstöðvar verða ekki opnaðar fyrr en í fyrsta lagi á nýju ári. Aftur á móti verður leyfilegt að opna sundlaugar en þó með þeim takmörkunum að þær mega taka við 50 prósent þeirra gesta sem starfsleyfi þeirra kveður á um. Þá er afreksfólki og íþróttamönnum hjá félögum í efstu deild leyft að snúa aftur til æfingar. 

Samkvæmt upplýsingum frá sóttvarnayfirvöldum eru bein smit frá líkamsrækt 36 og afleidd smit 74. Rétt er að hafa í huga að inn í þessari tölu er ekki hnefaleikafélagið í Kópavogi þar sem bein smit eru talin vera 84 og afleidd 327.  

Til samanburðar má nefna að bein smit frá sundlaugum eru talin vera 5 og heildarfjöldi afleiddra smita 20.  Munurinn er sumsé sjöfaldur.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir í samtali við fréttastofu að það sé ekki bara á Íslandi sem líkamsræktarstöðvar eru metnar í hæsta áhættuflokki.  Hér að neðan má til að mynda sjá mynd sem var útbúin af samtökum smitsjúkdómalækna í Bandaríkjunum.  Þar eru sundlaugar í flokknum yfir miðlungsáhættu en líkamsræktarstöðvar í hæsta áhættuflokki.  

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV

Þórólfur bendir jafnframt á að rannsóknir hafi sýnt að klórvatnið í sundlaugum drepi veiruna. Hann reiknar með að hann sendi ráðherra minnisblað um líkamsræktarstöðvarnar en býst fastlega við að umræðan um þetta haldi áfram. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV