Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Undirbúningur vegna bólusetningar í fullum gangi

Mynd: EPA / EPA
Verkefnastjóri hjá Landlæknisembættinu segir að undirbúningur vegna bólusetningar við COVID-19 sé í fullum gangi. Kynningarefni verði kynnt í lok þessarar viku. Ekki sé mögulegt að segja til um hve langan tíma taki að bólusetja þjóðina. Það fari eftir því hve mikið af bóluefni berist til landsins hverju sinni.

Það bendir allt til þess að það styttist í að byrjað verði að bólusetja við COVID-19. Enn er þó óljóst hvenær bólusetningin hefst. Undirbúningur er hins vegar í fullum gangi. Anna María Snorradóttir sem er verkefnastjóri hjá embætti Landlæknis er ein þeirra sem vinnur að undirbúningi og skipulagi bólusetninga. Hún segir að það gangi vel. Allar heilbrigðisstofnanir og heilsugæslustöðvar vinni að málinu.

“Eftir því sem ég best veit þá er fólk komið vel á veg miðað við þær upplýsingar sem það hefur um komu bóluefnisins og hve mikið við fáum.“

Hún segir að verkefnið sé stórt. Einnig sé unnið að skráningu þeirra sem verða í forgangi.

„Bæði hvernig við köllum fólk inn í bólusetningarnar og hvernig við getum forskráð forgangshópana og reynt að hafa þetta eins sjálfvirkt og hægt er. Það flýtir auðvitað fyrir ferlinu og eykur öryggi ef það er búið að forskrá einstaklinga inn í kerfin,“ segir Anna María.

Von á kynningarefni

Hún segir að umfangsmikil vinna fari líka fram hjá embættinu í tengslum við kynningarefni. Stutt sé í að það efni verði kynnt og aðgengilegt.

„Það er örlítið efni inni á covid.is um bólusetningarnar. Þessi vinna er í fullum gangi og verður vonandi kynnt seinnipart vikunnar.“

Um 230 þúsund manns búa á höfuðborgarsvæðinu. Fram hefur komið að undirbúningur er á fullu þar á bæ. Til greina kemur að taka skóla, kosningastaði eða íþróttasali á leigu til að sinna fjöldabólusetningum. Verði nóg af bóluefni taki ekki langan tíma að bólusetja fjölda fólks. En hvernig verður þessu háttað á landsbyggðinni eða þar sem strjálbýlt er?

„Það má segja að það sé ólíkt eftir aðstæðum hvernig það er hugsað. Fólk er auðvitað að hugsa margar leiðir. Það er hávetur og klárlega verður það þannig að þar sem eru hjúkrunarheimili verði bólusett á staðnum, bæði heimilismenn og starfsmenn. Þá verður teymi sem hugsanlega fer á milli staða ef um mjög fámennar byggðir er að ræða. Svo eru byggðakjarnar þar sem bólusett verður á ákveðnum stöðum. Hugsanlega á heilsugæslustöðinni, í skólum eða íþróttahúsum. Allt eftir því hve mikið bóluefni við fáum í einu,“ segir Anna María.

Full vernd vikur eftir tvær bólusetningar

Anna María segir að vegna óvissunnar um hve mikið af bóluefni berist til landsins hverju sinni sé ómögulegt að áætla hvað verkið taki langan tíma. Verkefnið sé nokkuð flókið ekki síst vegna þess að bólusetja þarf hvern einstakling tvisvar sinnum, með um þriggja vikna millibili. 

„Það er þannig að viku eftir að þú hefur fengið báðar sprauturnar að þá er talað um að þú sért komin með fulla vernd, ekki fyrr.“

Hún segir að í ljósi óvissunnar um hvenær bóluefni berst til landsins og hve mikið miðist öll skipulagning við það að hægt sé að byrja að bólusetja um leið og efnið berst hingað. Á morgun stendur til að skrifa undir samning við lyfjaframleiðandann Pfizer. Ísland stefnir að því að kaupa 5 til 600 þúsund skammta af bóluefni frá nokkrum framleiðendum. Það gæti nægt til að bólusetja 75% þjóðarinnar eða um 275 þúsund manns. Börn verða ekki bólusett eða þau verða ekki í forgangi.

Ýmsum brá í brún þegar viðvörunarkerfi yfir mismunandi hættustig í faraldrinum eftir tilteknum litum var kynnt í gær. Við erum núna á rauðu sem þýðir alvarlegt ástand. Vægasta eða lægsta hættustigið er grái liturinn, nýja normið. Á því stigi eru fjöldatakmörk miðuð við 50 til 100 manns og tveggja metra reglan í gildi.

 „ Það er ekki komin full vernd fyrr en búið er að bólusetja og viku síðar. Þannig að þetta fer eftir því hvers hratt við fáum bóluefnið. En ég held að við séum algjörlega í stakk búin til að bólusetja mjög hratt ef við fáum mikið efni. Þá munu allir leggjast á eitt að bólusetja eins hratt og við getum,“ segir Anna María.