Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Sem ég lá fyrir dauðanum – William Faulkner

Mynd: RÚV / Wikimedia commons

Sem ég lá fyrir dauðanum – William Faulkner

08.12.2020 - 11:12

Höfundar

„Þarna eru þau að lifa sínu lífi með líkið á milli sín. Þannig við erum alltaf í slagtogi við dauðann, við ferðumst með dauðanum í gegnum líf okkar,“ segir Rúnar Helgi Vignisson þýðandi um skáldsögu Williams Faulkners, Sem ég lá fyrir dauðanum, sem er bók vikunnar á Rás 1.

Sem ég lá fyrir dauðanum var fimmta skáldsaga bandaríska rithöfundarins Williams Faulkners sem kom út árið 1930. Stíll Faulkners er afar áberandi í bókinni og beitir hann mörgum af helstu brögðum módernismans. Frásögnin er margbrotin og skiptist milli 15 ólíkra radda sem öll segja söguna. Stíllinn einkennist af vitundarflæði (e. stream of consciousness) þar sem skiptast á beinar og óbeinar ræður, samtöl og innri hugsanir sögumanns. Oft á lesandi erfitt með að átta sig á aðstæðum og sumir kaflar enda jafnvel skyndilega í miðri setningu.

Þótt stíllinn sé margbrotinn er söguþráðurinn einfaldur. Þar segir af hinni sárafátæku Bundren-fjölskyldu í Suðurríkjum Bandaríkjanna á fyrstu áratugum 20. aldar. Ættmóðirin Addie Bundren liggur fyrir dauðanum í upphafi sögunnar og fyrir utan svefnherbergisgluggann er elsti sonurinn í óða önn að smíða handa henni líkkistu. Addie hefur tekið loforð af eiginmanni sínum að hún skyldi jörðuð bænum Jefferson, 40 mílur frá heimili fjölskyldunnar. Þegar Addie deyr leggja Anse, eiginmaður hennar, synirnir þrír og dóttir þeirra hjóna af stað með kistuna á kerru. Þau lenda í ýmsum hrakningum „sem draga fram eitt og annað í þessu fjölskyldumynstri og í leiðinni í bandaríska suðrinu sem Faulkner var alltaf að fjalla um. Hann sagði þegar hann tók við Nóbelsverðlaununum að honum myndi ekki endast ævin til þess að fjalla um þennan litla skika heimsins,“ segir Rúnar Helgi Vignisson, þýðandi bókarinnar en íslenska þýðingin kom út árið 2013.

Móderníska suðrið

Faulkner hélt sig á sínum heimaslóðum í Mississippi á meðan margir höfundar á hans reki héldu til Parísar. En Faulkner var þó ekki varhlutað af straumum og stefnum þess tíma sem hann lifði.  „Það má eiginlega segja að þetta sé svolítill bókmenntalegur kúbismi. Hann brýtur veruleikann upp og truflar framvindu sögunnar eins og módernistum var svo gjarnt að gera. Þeir vildu sýna veruleikann frá mörgum hliðum og enginn einn sannleikur. Þetta var bara samsafn sjónarhorna,“ segir Rúnar Helgi. „Það er enginn einn sögumaður sem heldur utan um þetta eins og Laxness beitti gjarnan á þessum tíma.“

Frægðarsól Faulkners var tekin að rísa hratt við upphaf fjórða áratugarins, þegar Sem ég lá fyrir dauðanum kom út. Áratugurinn átti eftir að verða hans afkastamesti tími, þegar hann gaf út frægustu og mikilsmetnustu verk sín. Árið 1949 var Faulkner handhafi bókmenntaverðlauna Nóbels.

Gestir í Bók vikunnar á sunnudagsmorgunn verða Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur og Sverrir Norland rithöfundur. Viðtal við Rúnar Helga Vignisson má heyra í spilaranum hér að ofan.