Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Segir eðlilegt að láta reyna á dóminn

Bjarni Benediktsson í viðtali í Valhöll 11. ágúst 2020.
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Ríkið hefur ákveðið að áfrýja niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um ólögmæti uppgreiðslugjalda Íbúðalánasjóðs. Fjármálaráðherra segir eðlilegt að láta reyna á dóminn þar sem miklir hagsmunir séu í húfi.

Fjölskipaður héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu í síðustu viku að Íbúðalánasjóði hefði verið óheimilt að krefjast þóknunar fyrir uppgreiðslu lána. Sjóðurinn bauð upp á lán með ákvæði um uppgreiðsluþóknun á árunum 2005 til 2013. Málið getur því haft fordæmisgildi fyrir þúsundir lánþega sem voru eða eru með svipað ákvæði í sínum lánasamningi.

Bjarni segir eðilegt að láta reyna á dóminn og vonar að það taki ekki of langan tíma.

„Ég held að það sé ekki verjandi annað en að láta efra dómstig fjalla um þessi risastóru álitamál. En það sem mér finnst erfitt í þessu máli er hins vegar það að það eru svo miklir hagsmunir undir hjá svo mörgum og það er líka langur tími liðinn frá því mörg þessara lána voru gerð upp þannig að það er dálítið erfitt að vera draga það á langinn. En það er engin önnur niðurstaða tæk fyrir ríkissjóð en að fá efri dómstig til að fjalla um þessi álitamál og fá bara niðurstöðu sem menn þurfa þá að sætta sig við. Eftir atvikum gæti þetta endað í Hæstarétti. En það er eina leiðin sem við höfum til að fá endanlega niðurstöðu í þetta mál,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.