Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Rökkurpopp, jólatónar, Jülevenner og fleira gúmmelaði

Mynd: Karítas Óðinsdóttir / Karítas Óðinsdóttir

Rökkurpopp, jólatónar, Jülevenner og fleira gúmmelaði

08.12.2020 - 16:20

Höfundar

Hátíðin er að hluta til við völd í Undiröldunni. Ómland sendi frá sér jólalag í ár, Guðrún Árný líka og þríeykið Jógvan, Vignir og Matti eru með jólalag líka. Elín J. Bergljótardóttir og Emmsjé Gauti koma við sögu, rökkurpopp frá Karítas Óðinsdóttur og desemberblús frá Teiti Magnússyni.

Jógvan, Vignir og Matti – Á Jólanótt
Þríeykið Jógvan Hansen, Vignir Snær Vigfússon og Matthías Freyr Matthíasson hafa verið duglegir að syngja og koma fram saman. Þeir héldu meðal annars haldið tónleika til heiðurs hljómsveitinni Eagles og þeim fannst tilvalið að prófa að semja jólalag í ár. Vignir og Matti sömdu lagið en þeir flytja það allir þrír. 

Ómland  Norðurstjarnan
Hljómsveitin Ómland hefur sent frá sér tvö lög og nú er komið að fyrsta jólalaginu þeirra. Lagið heitir Norðurstjarnan og þau sömdu það undir stjörnubjörtum vetrarhimni á Höfn í Hornafirði. Báðar söngkonur Ómlands hafa búið erlendis og segjast þekkja vel þá tilfinningu að komast ekki heim um jólin og söknuðinn sem því fylgir. Lagið fjallar því um að þrá að komast heim í faðm ástvina en hafa ekki tök á því. En þótt hafið skilji að erum við alltaf tengd í gegnum stjörnurnar, samkvæmt sveitinni, og getum huggað okkur við minningar sem ylja hjartaræturnar.

Guðrún Árný  Gömlu jólin
Frostrósin fyrrverandi, Guðrún Árný Karlsdóttir, sendir frá sér jólalag í ár sem heitir einfaldlega Gömlu jólin. Guðrún syngur lagið og leikur á á píanó, Unnur Birna Björnsdóttir leikur á fiðlu og raddar,  Birgir Steinn Theódórsson plokkar bassann og Rögnvaldur Borgþórsson leikur á gítarinn.

Karítas  The Girl That You Want
Karítas Óðinsdóttir byrjaði tónlistarferilinn sinn sem plötusnúður og gekk síðan til liðs við Reykjavíkurdætur sumarið 2018. Þessi samvinna hvatti hana til að hefja eigin sólóferil og hún gaf út þröngskífuna Songs 4 Crying í fyrravetur. Hún var að senda frá sér lagið The Girl That You Want sem er annar síngullinn af væntanlegri breiðskífu. Lagið er draumkennt og píanódrifið og Karitas segir að það lýsi því hvernig er að brjótast úr þeim fasta vana að sækja í það sem er slæmt fyrir sig.

Emmsjé Gauti og Jülevenner  Það eru jól
Gauti Þeyr er kominn í jólaskap og sendir frá sér lag í tilefni þess. Lagið heitir Það eru jól og honum til halds og traust er Þormóður Eiríksson pródúsent. Gauti varð að fresta árlegum jólatónleikum sínum en aðstandendur tónleikanna ætla í staðinn að gefa út jólaplötuna Það eru komin Jül, þar sem fjöldinn allur af þekktu íslensku tónlistarfólki lætur í sér heyra. Þar á meðal er Aron Can sem hefur verið tíður gestur á jólatónleikum Gauta.

Teitur Magnússon & Mads Mouritz  Desembersíðdegisblús
Hér er annar síngullinn af væntanlegri breiðskífu Teits í samstarfi hans við danska söngvaskáldið Mads Mouritz. Lagið Desembersíðdegisblús lýsir reynslu sem margir Íslendingar kannast við, skammdegið skellur á með myrkri og slyddu en ljóðmælandi er ekki enn kominn í jólaskapið. Lagið er samið við ljóð Einars Ólafssonar í bókinni Augu við gangstétt frá 1983. Upptökum stjórnaði Daníel Friðrik Böðvarsson og Styrmir Hauksson hljóðblandaði. 

Elín J. Bergljótardóttir  Stríð
Lagið er annar singúllinn af sólóplötu Elínar J. Bergljótardóttur. Platan hefur fengið nafnið Draumahöllin og áætlað er að hún komi út í janúar. Lagið er að sögn höfundar um ást og afbrýðisemi. Guðmundur Jónsson spilar á gítar, Hálfdán Árnason á bassa, Þorbjörn Sigurðsson á hljómborð, Helgi Birgir Sigurðarson á trommur og slagverk og Alma Rut Kristjánsdóttir syngur bakraddir. 

Tengdar fréttir

Popptónlist

Magni, Elín Ey, Naglbítar og fleiri komnir í jólagír