Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ólögmætt að streyma ekki frá fjarfundi bæjarstjórnar

08.12.2020 - 18:41
Útilistaverk við bæjarmörk Garðabæjar.
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Samgöngu-og sveitastjórnarráðuneytið hefur komist að þeirri niðurstöðu að það hafi verið ólögmætt af bæjaryfirvöldum í Garðabæ að streyma ekki frá fjarfundi bæjarstjórnar. Þar sem hljóðupptaka af fundinum hafi verið aðgengileg daginn eftir hafi ekki verið slíkir annmarkar að fundurinn teljist ógildur. Ráðuneytið telur eftir sem áður mikilvægt að fundir sveitarstjórna séu alltaf opnir og aðgengilegir íbúum.

Íbúi í Garðabæ kvartaði til ráðuneytisins yfir framkvæmd bæjarstjórnarfundar í byrjun nóvember. Fundurinn hefði verið haldinn með fjarfundabúnaði en ekki verið sýndur í beinni netútsendingu. 

Garðabær sagði í svari til ráðuneytisins að framkvæmdin hefði verið með þeim hætti að fundum bæjarstjórnar væri ekki streymt beint heldur væru fundargerðir og hljóðupptökur gerðar aðgengilegar á vefsíðu bæjarfélagsins daginn eftir.

Ráðuneytið segir í áliti sínu að kveðið sé skýrt á um það í sveitarstjórnarlögum að almenningur eigi rétt á því að vera viðstaddur fundi sveitarstjórnar. Fundir eigi ekki að vera lokaðir nema brýnar og réttmætar ástæður séu til.  

Þá bendir ráðuneytið á að sveitarfélög hafi fengið svigrúm til að finna leiðir til að tryggja starfhæfi sveitarstjórna í samræmi við heimild um að halda fjarfundi vegna kórónuveirufaraldursins. 

Sveitarfélögum hafi verið veitt víðtækari heimildir til halda sveitarstjórnarfundi frá 19. mars og því haft rúman tíma til að finna út úr tæknilegum atriðum og öðrum mögulegum vandamálum sem kunni að koma upp, meðal annars varðandi framkvæmd fjarfunda.

Ráðuneytið telur því að fjarfundafyrirkomulagið réttlæti ekki að fundir séu lokaðir íbúum sveitarfélagsins. Að fenginni reynslu af notkun fjarfundabúnaðar sjái ráðuneytið ekki að tæknilegar eða kostnaðarlegar ástæður hamli því að fundir séu sýndir í beinni vefútsendingu.

Það hafi því verið ólögmætt að streyma ekki fjarfundi bæjarstjórnar Garðabæjar í byrjun nóvember. Þar sem hljóðupptaka hafi verið sett inn daginn eftir teljist þessir annmarkar ekki slíkir að fundurinn sé ógildur. Engu að síður ætli ráðuneytið að fylgja eftir tilmælum sínum um að fundirnir verði sýndir beint og eftir atvikum taka til skoðunar hvort ástæða sé að líta til annarra úrræða sveitarstjórnarlaga.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV