Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Maðurinn sem fyrstur rauf hljóðmúrinn látinn

08.12.2020 - 04:52
Chuck Yeager sem fyrstur varð til að rjúfa hljóðmúrinn í flugvél, lést 97 ára að aldri 7. desember 2020.
 Mynd: EarthSky
Chuck Yeager, bandaríski herflugmaðurinn sem varð fyrstur til að rjúfa hljóðmúrinn, er látinn. Hann var 97 ára að aldri, fæddur í smábænum Myra í Vestur-Virginíuríki árið 1923.

Yeager var orrustuflugmaður í seinni heimstyrjöldinni en komst á spjöld sögunnar árið 1947 þegar hann var fenginn til að stýra tilraunaflugvélinni Bell X-1. Vélin náði að fara hraðar en hljóðið, afrek sem meðal annars gerði uppbyggingu geimferðaáætlunar Bandaríkjamanna að veruleika.

Á Vísindavef Háskóla Íslands segir að hljóðhraði í lofti sé um 340 metrar á sekúndu eða 1220 kílómetrar á klukkustund. Þegar farartæki nái þeim hraða er sagt að þau hafi rofið hljóðmúrinn. Við það heyrist mikill hvellur en svo falli allt í dúnalogn.

Yeager setti fleiri met á tíma sínum sem flugmaður en sögunni af því þegar X1 rauf hljóðmúrinn var gerð góð skil í kvikmyndinni The Right Stuff frá 1983.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV