Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Króatar unnu Serba og eru með fullt hús stiga

Mynd: EPA / EPA

Króatar unnu Serba og eru með fullt hús stiga

08.12.2020 - 17:00
Króatía heldur áfram að koma á óvart á EM kvenna í handbolta í Danmörku. Þrír sigrar í þremur leikjum, fullt hús og fjögur stig inn í milliriðil. Í dag unnu þær Serba í háspennuleik.

Króatía var búið að tryggja sitt sæti í milliriðlum fyrir leikinn í dag en gátu með sigri tekið 4 stig með sér í milliriðilinn. Serbía þurfti hins vegar eiginlega að vinna til að falla ekki í úr keppni, því annars þyrfti liðið að treyst á sigur Ungverja gegn Hollandi síðar í kvöld.

Fyrri hálfleikur var hágæðahandbolti. Ákaflega fáir tæknifeilar sáust og góð tilþrif bæði í vörn og í sókn. Forystan gekk liðanna á milli í jöfnum leik. Serbar náðu góðu forskoti um miðjan hálfleikinn þegar þær komust fjórum mörkum yfir, 13-9. Króatar lögðu þó ekki árar í bát og með áköfum varnarleik náðu þær hægt og bítandi að minnka forskotið. Þær jöfnuðu svo metin með síðasta skoti fyrri hálfleiks en 14-14 stóð í leikhléi og höfðu Króatar þá skorað 4 mörk í röð.

Þær skoruðu svo fimmta markið í röð í upphafi seinni hálfleiks og komust aftur yfir. Það gaf tóninn fyrir seinni hálfleik. Sá var hnífjafn og forystan gekk liðanna á milli ótt og títt. Serbar komust í 23-21 en þá gaf sóknin sig hjá þeim. Þær skoruðu ekki í 10 mínútur og Króatía komst í 25-23. Serbar minnkuðu muninn í 25-24 og áttu lokasóknina. Hún endaði með slakri sendingu sem Króatar stálu og fögnuðu sigrinum.

Króatía hefur unnið alla leik sína á mótinu mjög óvænt og fara með 4 stig áfram í milliriðil eftir að hafa tapaði öllum leikjum sínum á síðustu tveimur Evrópumótum og orðið þar neðstar. Serbar verða að bíða úrslitanna hjá Ungverjalandi og Hollandi í kvöld. Sigur Ungverjalands tryggir Serbíu áfram en hollenskur sigur sendir Serbíu úr leik.