Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Frakkar höfðu betur gegn Dönum

Mynd: EPA-EFE / RITZAU SCANPIX

Frakkar höfðu betur gegn Dönum

08.12.2020 - 19:15
Frakkland og Danmörk mættust í seinni leik dagsins í A-riðli á Evrópumóti kvenna í handbolta sem fram fer í Danmörku þessa dagana. Eftir mikinn baráttuleik voru það Frakkar sem báru sigur úr býtum og fara með fjögur stig í milliriðil.

Frakkland og Danmörk eru tvær af sterkustu þjóðum heims í kvennahandbolta og það var mikið í húfi fyrir þennan leik stórleik, sigurvegari leiksins gat farið með fjögur stig í milliriðla sem gæti reynst dýrkeypt þegar líður á mótið.

Mikið fjör var í leiknum til að byrja með og hvorugu liðinu tókst að slíta sig frá hinu. Fyrir þennan leik höfðu þessi lið fengið á sig fæst mörk allra á mótinu og því ljóst að barátta og markvarsla einkennir þessi lið. Sú varð einmitt raunin og varnir beggja liða spiluðu virkilega vel framan af, sömu sögu má segja um markmennina Amandine Leynaud og Söndru Toft. Liðin skiptust eins og áður sagði á að skora allt þar til undir lok fyrri hálfleiks þegar Laura Flippes skoraði annað mark Frakka í röð og kom Frökkum 12-11 yfir sem var staðan í hálfleik.

Í lok fyrri hálfleiks og í byrjun seinni hálfleiks hikstaði sóknarleikur Dana all verulega, þær fundu engin göt á sterkri vörn Frakka og Frakkar gengu á lagið sóknarlega. Pauline Coatanea kom Evrópumeisturunum 16-12 yfir þegar tæpar sjö mínútur voru liðnar af seinni hálfleik og danska liðið virtist ráðalaust. Staðan varð svo enn verri þegar Alexandra Lacrabere kom Frökkum fimm mörkum yfir í stöðunni 18-13 með marki úr vítakasti stuttu síðar. Þennan mun náðu Danir ekki að vinna til baka og þurftu að játa sig sigraða í leikslok, þetta er fyrsti leikur sem gestgjafarnir tapa en þær fara í milliriðla með tvö stig á meðan Frakkar taka með sér fjögur. Lokatölur urðu 23-20 og var Amandine Leynaud valin best í leikslok eftir að hafa varið 11 skot í marki Frakka.