Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Dómur um uppgreiðslugjald gæti haft áhrif á enn fleiri

Mynd: Eddi / RÚV
Dómur um ólögmæti uppgreiðslugjalds hjá Íbúðalánasjóði gæti haft enn meiri áhrif en orðið er. Til dæmis gætu þeir látið reyna á rétt sinn sem hættu við að endurfjármagna óhagstætt lán vegna þess að uppgreiðslugjaldið var of hátt, að sögn Þóris Skarphéðinssonar, lögmannsins sem rak málið og vann fyrir héraðsdómi.

Þórir segir marga hafa haft samband við sig frá því að dómur féll og sagst í svipaðri stöðu og fólkið sem vann málið, sá sem mest hafi greitt í ólöglegt uppgreiðslugjald hafi borgað sex milljónir. Dómurinn, ef hann stendur, hafi aðallega áhrif á fólk sem hefur greitt gjaldið.

„Síðan eru fjölmargir aðrir sem hafa verið í þeirri stöðu – og allnokkrir sem hafa haft samband við mig – að þeir óskuðu á einhverjum tímapunkti eftir því að fá að endurfjármagna lán sín, sem sagt greiða upp lánið hjá sjóðnum af því að það væru í boði helmingi lægri vextir hjá öðrum lánastofnunum. En þá var svarið bara: Já já, það er ekkert mál, en þú verður að borga 3-5 milljónir í uppgreiðsluþóknun. Það gekk ekki upp hjá þessum einstaklingum fjárhagslega að gera þetta,“ útskýrir Þórir.

Halda megi fram að þetta fólk hafi líka orðið fyrir tjóni.

„En þetta er auðvitað annað úrlausnarefni og mundi fara í annan farveg. Það þyrfti í rauninni að sýna fram á tjón þeirra og hugsanlega dómkveða matsmenn eða eitthvað slíkt, en þetta er mögulega eitthvað sem á eftir að reyna á,“ sagði Þórir Skarphéðinsson í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.