Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Desembervertíðinni hefur þannig séð verið aflýst“

08.12.2020 - 19:15
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Veitingamenn lýsa yfir vonbrigðum með þær breytingar sem boðaðar hafa verið á sóttvarnaraðgerðum. Þeir segja að desembervertíðinni hafi í raun verið aflýst. Eigandi Sporthússins segir það vera áfall að eigendum líkamsræktarstöðva hafi ekki verið gefið leyfi til að opna.

Skiptar skoðanir eru meðal hagsmunaaðila um þær breytingar sem boðaðar hafa verið á sóttvarnaraðgerðum. Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu fagnar þessum breytingum og segir þær taka tillit til þeirra athugasemda sem samtökin hafa lagt fram.

„Þessar reglur sem hafa verið í gildi að undanförnu hafa hamlað mjög starfsemi verslana núna á þessum annatímum. Í því ljósi eru þessar ákvarðanir sem kynntar voru í hádeginu og taka gildi á fimmtudaginn mjög ánægjulegar og breytir öllu fyrir bransann,“ segir Andrés.

Líkamsræktarstöðvar hafa verið lokaðar frá því í byrjun októbermánaðar og þær verða áfram lokaðar, að minnsta kosti til 12. janúar.

Þröstur Jón Sigurðsson eigandi Sporthússins segir það vonbrigði að eigendur líkamsræktarstöðva fái ekki leyfi til að opna.

„Þetta er mikið áfall. Ég átti ekki von á því að þetta yrði gefið út til þetta langs tíma,“ segir Þröstur.

Veitingastaðir fá heimild til að taka á móti fimmtán viðskiptavinum í rými í stað tíu. Bragi Skaftason veitingamaður á Tíu sopum í miðborg Reykjavíkur segir þetta litlu breyta.

„Desembervertíðinni hefur þannig séð verið aflýst. Eins og hún hefur verið venjulega. Við þiggjum með þökkum alla þá viðskiptavini sem koma núna og sem betur fer erum við hérna á Laugaveginum með göngugötuna. Undanfarna daga hefur rennslið verið frábært. En við getum svo sem ekki tekið við mörgum og það er kannski ekki að bætast mikið við núna. Fimmtán úr tíu er svo sem stökk en þegar við horfum á stóru myndina þá er þetta ekki mikill munur,“ segir Bragi.

Vínveitingahús og skemmtistaðir fá hins vegar ekki að opna.

„Þetta eru gríðarleg vonbrigði fyrir alla bar- og kráareigendur. Við vorum að búast við því að fá að opna. Fá kannski að hleypa inn tíu eða tuttugu manns. Það virðist vera að allir eigi að fá upplifa gleðileg jól nema bar-og kráareigendur. Þannig að við óskum öllum gleðilegra jóla,“ segir Arnar Þór Gíslason vínveitingamaður í Reykjavík.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV