Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bætur vegna riðuveiki gætu numið 200 milljónum króna

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Heildarbætur til bænda á fimm bæjum í Skagafirði, sem þurftu að skera fé sitt vegna riðuveiki í haust, gætu numið um 200 milljónum króna. Varaformaður fjárlaganefndar segir fjárheimild til bóta fást að hluta með sérstakri heimild í fjárlögum og að hluta í fjáraukalögum.

Fréttablaðið ræðir í dag við Harald Benediktsson, varaformann fjárlaganefndar og fyrrverandi formann Bændasamtaka Íslands. Möguleg bótafjárhæð kemur fram í svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins.

Enn hafi þó engar bætur verið greiddar en í fjárlögum sé gert ráð fyrir 123 milljónum í málaflokknum Greiðslur vegna varna gegn dýrasjúkdómum. Í svari ráðherra komi fram að nauðsynlegt þurfi að hækka fjárhæðina meira en sem nemur fyrirhugaðri 50 milljón króna hækkun á fjárlögum 2021. Það fari eftir hvernig bótagreiðslur skiptist milli ára.

Fréttablaðið hefur eftir Haraldi Benediktssyni, varaformanni fjárlaganefndar, að núverandi reglur og stjórnsýsluframkvæmd vegna riðuveiki sé nú í mati og endurskoðun hjá ráðuneytinu í samráði við Matvælastofnun.