Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Báðu grænlensku börnin afsökunar

08.12.2020 - 15:34
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Dönsk stjórnvöld báðu í dag afsökunar 22 grænlensk börn sem tekin voru frá sínum nánustu og flutt til Danmerkur árið 1951. Með því átti að gefa þeim tækifæri til að lifa betra lífi en heima á Grænlandi.

Í yfirlýsingu frá danska forsætisráðuneytinu segist Mette Frederiksen forsætisráðherra hafa fylgst með málinu árum saman. Hún sé harmi slegin yfir þeim mannlega harmleik sem það olli. Ekkert tillit hafi verið tekið til barnanna, þau rifin úr sínu eðlilega umhverfi, tengsl þeirra við fjölskyldur og aðra ættingja rofin, sömuleiðis ættlandið Grænland og sögu þess. 

Hún bætir við að ekki sé hægt að breyta því sem þegar sé orðið en það sé hægt að axla ábyrgð og biðja þau fyrirgefningar sem brugðist var með þessum hætti.  

Stjórnvöld í Danmörku og á Grænlandi gáfu í dag út skýrslu um sögu barnanna og afleiðingarnar sem flutningarnir til Danmerkur höfðu á líf þeirra. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV