Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Á að ræða við Vegagerðina um „lágkúrulegt“ hringtorg

08.12.2020 - 16:11
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Bæjarráð Garðabæjar fól í morgun Gunnari Einarssyni, bæjarstjóra, að ræða við Vegagerðina um hringtorg á Álftanesi sem er fyrir framan forsetabústaðinn. Ábending barst frá leiðsögumanni sem bendir á að þetta sé malarhringtorg og í hvert sinn sem hann komi akandi að því þyki honum það alltaf jafn leiðinlegt „hversu lágkúrulegt þetta hringtorg er.“

Íbúinn veltir því upp hvort ekki sé hægt að veita þessu hringtorgi smá andlitslyftingu. Leyfa jafnvel ungum hönnuðum eða listamönnum að spreyta sig í hönnunarsamkeppni um áhugaverða útkomu.

Bendir hann á að margt spennandi gæti komið til greina, tenging við sjómennsku, j hesta eða sjálfa Bessastaði með styttu af Sveinbirni Egilssyni, rektor Bessastaðaskóla. „En fyrst og fremst þarf að gera bragarbót á þessu malartorgi. Það er eiginlega bara sorglegt,“ skrifar leiðsögumaðurinn.

Bæjarráð brást vel við þessari ábendingu og tók undir þau sjónarmið að bæta mætti frágang á hringtorginu við Bessastaði. Var bæjarstjóra falið að taka upp viðræður við Vegagerðina vegna málsins.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV