Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Smygla hvolpum til Svíþjóðar og selja á okurverði

07.12.2020 - 19:39
Mynd: Skjáskot / Skjáskot
Svartamarkaðsbrask með hvolpa er orðið vaxandi vandamál í Svíþjóð og þeim er nú smyglað til landsins í auknum mæli. Tollverðir líkja ástandinu við skiplagða glæpastarfsemi.

Til þess að bregðast við einmanaleika á tímum aukinnar innilokunar eru fleiri sem fá sér hund. Sænskir tollverðir finna vel fyrir því að óprúttnir aðilar reyna að græða á ástandinu. Dæmi eru um að hvolpar séu keyptir í Evrópu fyrir um 150 evrur, sem eru rúmlega tuttugu þúsund íslenskar krónur, þeim svo smyglað til Svíþjóðar og seldir þar með allt að tuttuguföldum hagnaði. 

„Þetta eru miklir peningar sem um ræðir. Maður hugsar vanalega ekki um hundasmygl sem skipulagða glæpastarfsemi en þetta eru háar fjárhæðir,“ segir tollvörðurinn Terese Björneskog.

Tollverðir fundu nærri hundrað hvolpa á tveggja mánaða tímabili í haust, samanborið við 35 á sama tíma í fyrra. Uppruni þeirra er oft ókunnur og þeim fylgja fölsuð skjöl. Dýralæknar fyrirskipa því annað hvort að þeim sé lógað, eða sendir sömu leið til baka. Og þá reyna smyglararnir bara aftur, með tilheyrandi álagi á dýrin.

Vísað úr landi en fundust til sölu á netinu

„Síðast þegar mál eins og þetta kom upp ákvað Landbúnaðarstofnun eða umdæmisdýralæknarnir að vísa hundunum úr landi. Daginn eftir rákumst við á sama fólk á leið úr landi með tóm búr. Hundarnir höfðu verið afhentir einhvers staðar,“ segir Björneskog.

Við nánari eftirgrennslan fundust hvolparnir svo til sölu á netinu. Tollayfirvöld vilja að harðar sé tekið á vandamálinu.

„Við viljum sjá miklu betri viðbrögð hjá héraðsdýralæknunum og Landbúnaðarstofnun. Hraðari viðbrögð þar sem litið er á dýrin sem söluvöru af því að þau eru það,“ segir tollvörðurinn Håkan Hansson.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV