Sigurður og Sigríður gáfu út plötuna snemma í desember en þau hafa áður gefið út sína jólaplötuna hvort, sem réttilega má fullyrða að hafi báðar öðlast sess í hátíðahljómplötuhillum landsmanna. Þó er það ekki fyrr en nú að þau senda frá sér hljómplötu með lögum þessum, sem þau hafa hljóðritað í tengslum við hina árlegu hátíðahljómleika.
Nú nýverið, til að hnýta saman þessa sannkölluðu perlufesti, voru hljóðrituð þrjú lög: Hið spánnýja titillag plötunnar Það eru jól eftir Sigurð; hið sígræna lag Er líða fer að jólum, sem Ragnar Bjarnason söng áður, en það lag var einmitt hljóðritað þann 22. september á afmælisdegi Ragnars heitins; og svo lokalag plötunnar Hvað ertu að gera á gamlárs? sem er ný þýðing á laginu What Are You Doing New Year’s Eve? eftir Frank Loesser.
Það eru ýmsir sem koma að gerð plötunnar en upptökustjórn var í höndum Sigurðar Guðmundssonar, Samúel Jón Samúelsson sá um útsetningar blásturshljóðfæra. Hjörtur Ingvi Jóhannsson leikur á píanó og Tómas Jónsson á orgelið. Guðmundur Óskar Guðmundsson plokkar bassann, Þorvaldur Þór Þorvaldsson spilar á trommur, ásamt Matthíasi Hemstock og Daníel Friðrik Böðvarsson spilar á gítar.
Upptökur fóru fram í Hljóðrita, Skammarkróknum, í Sundlauginni og Stúdíó Sjampó og upptökumenn voru Guðmundur Kristinn Jónsson, Sigurður Guðmundsson, Friðjón Jónsson og Guðmundur Óskar Guðmundsson.Rakel Tómasdóttir sá um hönnun og uppsetningu plötunnar, Lilja Birgisdóttir og Brynjar Snær tóku ljósmyndir. Platan er lent á streymisveitum en sömuleiðis á vínyl.